136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:43]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að fylgjast með því sem talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa lagt fram vegna þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, um að leiða til lykta ákvörðun um fjárhagslega fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem í sjálfu sér er með þeim hætti að fæstir draga í efa þörfina á að sú fyrirgreiðsla verði fengin og nauðsyn þess. En í fylgiskjölum sem fylgja þingsályktunartillögunni og því sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra sögðu um málið er talað um að þetta sé byggt á ákveðnum forsendum, m.a. að hrinda eigi í framkvæmd metnaðarfullri áætlun í ríkisfjármálum, talað er um að tryggja stöðugleika krónunnar og fleira er talað um í þessu sambandi. Eftir að hafa hlustað á það sem þarna var sagt og á brigslyrði, hugmyndir og skoðanir um hvað hafi valdið því að við erum lent í þeim ógöngum sem við erum þar sem talsmenn ríkisstjórnarinnar og bankastjóri Seðlabankans hafa fundið þá blóraböggla sem um er að ræða, þá er mjög fróðlegt að sjá hvað aðrir segja um málið. Það er mjög fróðlegt að lesa hvað stendur í því plaggi sem kemur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvaða skuldbindingar og skilyrði eru fyrir þeirri lánveitingu sem hér um ræðir, hvers vegna það efnahagshrun hefur orðið sem við stöndum nú frammi fyrir sem staðreynd. Þar er heldur betur annað upp á teningnum en það sem hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra og talsmenn ríkisstjórnarinnar tala um.

Svo vísað sé til þess sem fjallað er um hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá segir m.a. að þrýstingur á alþjóðlegum mörkuðum og vantraust á fjármálakerfi Íslands í október 2008 hafi leitt til hruns þriggja stærstu banka landsins. Hvað þýðir þetta? Það er ekki verið að segja að íslensku bankarnir hafi staðið svo illa að það hafi í raun verið orsök þeirra efnahagsvandræða sem við lentum í. Nei, það sem kemur fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er að það hafi verið þrýstingur á alþjóðlegum mörkuðum og vantraust á fjármálakerfi Íslands.

Þá spyr ég: Hver ber höfuðábyrgðina á því að vantraust myndast á fjármálakerfi heils lands? Getur verið um nokkurn annan að ræða en ríkisstjórn landsins og þá bankastjórn Seðlabanka Íslands sem á að tryggja fjármálalegan stöðugleika?

Í þessu sambandi segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn einnig að um nokkurt árabil hafi byggst upp margvíslegt efnahagslegt misræmi og íslenskt efnahagslíf hafi verið viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áföllum. Ekki er sagt, eins og látið er í veðri vaka af talsmönnum ríkisstjórnarinnar, að allt í einu hafi komið skyndileg holskefla erlendis frá, heldur að þessi vandamál hafi verið að byggjast upp um langt árabil. Hverjum er um að kenna? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki í vafa um að þar er ríkisstjórninni og Seðlabankanum um að kenna. Nú er verið að tala um að veita ákveðna lánafyrirgreiðslu og þá telja þessir strandkafteinar, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að allir aðrir en þeir beri ábyrgð á þeim vandamálum sem íslenskt fjármálakerfi er komið í.

Virðulegi forseti. Mér finnst ábyrgðarhluti, á sama tíma og ég tel nauðsynlegt að við fáum þá lánafyrirgreiðslu sem verið er að tala um frá vinaþjóðum okkar, að ætla að fela sömu ríkisstjórn og sömu bankastjórn Seðlabanka að höndla með málin áfram, að fara áfram með það viðkvæma fjöregg sem þjóðin stendur frammi fyrir að verður að varðveita svo það brotni ekki. Því miður treysti ég hvorki ríkisstjórninni né bankastjórn Seðlabankans til að fara að með þeim hætti að gætt sé fyllsta öryggis eða að velja skynsamlegustu leiðina fram á við til hagsbóta fyrir íslenska þjóð. Ég segi því miður, af því að nú ríður virkilega á að tekið sé vel á og að vaskt fólk leiði þjóðina áfram. Þjóðin þarf á því að halda.

Fleira kemur fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í 14. lið áætlunar sem hæstv. fjármálaráðherra og seðlabankastjóri skrifa undir og er fylgiskjal með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu er talað um að hrinda í framkvæmd metnaðarfullri áætlun í ríkisfjármálum. Hvað segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn um það? Hann segir einfaldlega að hann muni leyfa halla á ríkissjóði árið 2009 en árið 2010 komi það ekki til greina. Þannig að annaðhvort verður að koma til gríðarlegur niðurskurður ríkisútgjalda eða gríðarlegar skattahækkanir.

Þetta er nú eitthvað annað en metnaðarfull áætlun í ríkisfjármálum. Hér er verið að boða gríðarlegar skattahækkanir eða verulegan niðurskurð í útgjöldum ríkisins, óumflýjanlegan niðurskurð. Þetta er sú staðreynd sem verið er að tala um og við stöndum frammi fyrir og það sem við erum í raun að skrifa undir og horfa fram á.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvernig í ósköpunum stendur á því að talsmenn ríkisstjórnarinnar segja þingi og þjóð ekki satt um hvaða skuldbindingar og hvaða áætlanir eru í gangi og eru fram undan? Af hverju ekki? Mér finnst alvarlegt að þannig skuli vera farið að.

Þá er talað um að tryggja stöðugleika krónunnar sem aldrei hefur verið hægt að tryggja á undanförnum árum. Hvernig á að vera hægt að tryggja stöðugleika krónu sem byggist á markaðsgengi minnsta myntkerfis heims eftir þær efnahagslegu hremmingar sem við höfum lent í þegar ekki tókst betur til en svo á meðan við vorum samkvæmt því sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins héldu lengi fram ríkasta þjóð í heimi?

Síðan á að styðja sig áfram við hækju verðtryggingarinnar sem er að sliga heimilin í landinu. Það er gjörsamlega óásættanlegt, virðulegi forseti, við þessar aðstæður að ekki sé gefið upp á nýtt og þjóðfélagið núllstillt í staðinn fyrir að láta skuldsetta einstaklinga bera allar byrðarnar. Ég ætla bara að benda mönnum á örlítið dæmi sem sýnir hvers konar rugl er í gangi með því að ætla að viðhalda verðtryggingu.

Ef við tökum 10 millj. kr. lán til 40 ára óverðtryggt með 20% vöxtum þá er heildargreiðslan af því eftir 40 ár 50 milljónir. En ef lánið er með 6,5% vöxtum verðtryggt til 40 ára og verðbólgan er 13,6%, sem er lægri verðbólga en nú er, hver er þá endurgreiðslutala lántakandans? Ég skal segja ykkur það. Af 10 milljónum sem viðkomandi fær lánaðar þarf hann að greiða til baka 930 milljónir af því að verðtryggingarkerfið er svo óréttlátt að það leggst alltaf ofan á og bætist við höfuðstólinn. Það þarf ekki annað dæmi til að sýna hvers konar rugl og bull það er að ætla að hafa gjaldmiðil sem verður að styðja sig við þessa hækju sem getur aldrei orðið annað en heimilunum um megn. Það verður að tryggja eðlileg lánakjör í landinu með sambærilegum hætti og gerist í nágrannalöndum okkar.

Alvarlegasti hlutur sem getur gerst í einu þjóðfélagi er þegar venjulegt fólk snýr lyklinum í skránni heima hjá sér og afhendir lánardrottnunum og segir: Ég get ekki meir. Eru lánardrottnarnir betur settir? Hvar eru þá lífeyrissjóðirnir og Alþýðusamband Íslands sem virðist ætla að bregðast gjörsamlega venjulegu fólki í landinu? Eru menn eitthvað betur settir með það að fólk geti ekki greitt skuldir sínar? Ónei, ónei.

Það þarf metnaðarfulla áætlun í ríkisfjármálum og peningamálum en sú áætlun liggur ekki fyrir hér, virðulegi forseti. Það þarf annað fólk í Seðlabankann og annað fólk í ríkisstjórnina og við þurfum kosningar strax.