136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér býsna dýrkeypt lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, lán upp á um fimm milljarða dollara sem við þurfum að borga fyrir allt að 660 milljarða kr. ef ekkert kemur á móti Icesave-kröfunum. Mig undrar svolítið það orðaval sem hv. þm. og formaður utanríkismálanefndar, Bjarni Benediktsson, viðhafði áðan. Hann talar eins og það sé búið að koma Icesave-málinu í eitthvert samningaferli.

Er það ekki rétt skilið hjá mér, hv. þingmaður, að niðurstaða er fengin en það er ekkert samningaferli? Við Íslendingar, ríkisstjórnin hefur með því að skrifa undir 9. grein í því þingskjali sem hér um ræðir fallist á kröfu Evrópusambandsins fyrir hönd Breta og Hollendinga að greiða, að standa fyrir ábyrgð á þeim 20 þúsund evrum sem krafan er um í tryggingalánakerfinu. Þetta er enginn samningaferill heldur er þetta bein niðurstaða. Mig langar til þess að fá svar við þeirri spurningu hjá hv. þingmanni.

Ég lít þannig á að við getum í rauninni ekki látið á það reyna fyrir dómstólum hvort tryggingasjóðurinn sem slíkur á að duga eða hvort það er í rauninni ríkið og skattgreiðendur sem eiga að greiða þetta. Það var sú krafa sem ég hélt að væri gerð og þau lögmætu rök sem uppi voru höfð en síðan virðist mér að nú hafi verið fallið frá þeim.