136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að menn skilji það sem hér er lagt á borð og ræði sínum skilningnum hver, vegna þess að við sem hér erum í stjórnarandstöðu höfum fengið afskaplega lítið að vita um hvað til stendur.

Ég hafði skilið þau orð sem er að finna í 9. gr. um forfjármögnun í þessu skyni sem ákvæði um lán, að til þess að standa skil á þeim 640–660 milljörðum kr., sem við erum að gangast í ábyrgð fyrir, höfum við tvennt: Annars vegar höfum við þær eignir sem kunna að reynast enn í fórum Landsbankans til þess að setja upp í þetta og hins vegar ætlum við að slá lán fyrir restinni með þessari tilteknu forfjármögnun. Þannig hafði ég skilið þetta. Nú kemur hér hv. þingmaður og segir að það sé ýmislegt fleira, þeir ætli að hjálpa okkur að koma bankakerfinu á lappirnar og allt það.

Ég verð bara að segja það hreint út að ég tel að með þessum gjörningi hafi ríkisstjórnin beygt sig í duftið fyrir tvöföldu valdi, bæði valdinu í Brussel og valdinu hjá IMF. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort það hafi þó áunnist í þessu ferli að hryðjuverkaákvæðinu, hryðjuverkastimplinum á Landsbankann og þar með íslenska ríkið, hafi verið aflétt. Er hann farinn af heimasíðu hjá þeim í Bretlandi? Ég á enn eftir að sannreyna það.