136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um þetta síðarnefnda hvort það sé þannig á heimasíðu fjármálaráðuneytisins í Bretlandi að það sé búið að afmá þetta svokallaða „freezing order“ eða kyrrsetningu eigna hvað viðvíkur Landsbankanum en mér finnst mjög líklegt að það verði gert, ef það er ekki þegar búið að gera það, innan fárra daga, vegna þess samkomulags sem hér er rætt um.

Það sem ég held að skipti miklu máli fyrir okkur að skilja í samhengi við þetta samkomulag sem er að hluta til komið, þ.e. ramminn að því, en nánari útfærsla er eftir, t.d. það sem skiptir öllu fyrir okkur, þ.e. hver endurgreiðslan á ári verður vegna þeirra lána sem við munum mögulega þurfa að taka. Það hefur gríðarlega mikið að segja fyrir getu okkar til þess að standa undir verkefnum í velferðarkerfinu, til að standa undir framkvæmdum og til að standa undir samneyslunni. Í því samhengi held ég að það væri skynsamlegt að sækjast eftir því að endurgreiðslur okkar vegna þessara lána muni ekki nema nema einhverju tilteknu broti af þjóðarframleiðslunni á ári. Þannig væri í sjálfu sér skuldin sjálf til staðar en greiðslubyrðinni hagað til samræmis við það sem hagkerfið þolir. Þetta er eitt af því sem að mínu áliti kæmi til álita fyrir utan það að ég held að það væri skynsamlegt að hafa ákvæði í þessu samkomulagi um mögulega endurskoðun vegna þess að það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður hefur bent á, hér er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða, óvissan er mikil um það hvernig okkur kemur til með að vegna í framtíðinni og ganga að greiða lánin til baka. Að mínu áliti er því nauðsynlegt að hafa glugga í slíku samkomulagi (Forseti hringir.) um mögulega endurskoðun síðar ef þær forsendur sem við erum að gefa okkur í dag bresta.