136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það komi í sjálfu sér enn þá til greina að taka ekki lánið frá IMF. Hér erum við með tillögu til þingsályktunar þar sem ríkisstjórnin fer fram á það við þingið að fá heimild til þess að leiða þetta mál til lykta. Þannig er málið lagt fyrir þingið með þeim möguleika opnum að þingið taki ákvörðun um að styðja ekki áframhald þessa máls og þá endar það einfaldlega á því að það verður ekki dregið á lánsloforðið sem við erum komin nú með í hendi.

Ég held hins vegar að úr því sem komið er og vegna þeirrar stöðu sem við erum í, væri mikið óráð að gera það. Ég held að það væri mikið óráð að taka þetta mál og setja það í nýjan farveg. Ég held að við eigum allt undir því núna að endurvekja traust og trúverðugleika á því sem við erum að vinna að og það væri síst til þess fallið að hverfa frá því fyrirkomulagi eða því verklagi sem mótast hefur hjá ríkisstjórninni, þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og ætla að fara að reyna að bjarga sér á eigin vegum í þeim ólgusjó í alþjóðlegu tilliti sem nú er. Ég held að það væri óskynsamlegt og ég mun styðja þessa tillögu til þingsályktunar til þess að okkur takist að nýju að endurreisa hér stöðugleika og koma gengi krónunnar aftur í lag.

Ég held líka að við þurfum að horfa til þess að það er ekki sjálfgefið þó að við tökum þetta lán að peningunum verði öllum hent út í loftið eins og gefið er í skyn. Þessir peningar munu vera til staðar í gjaldeyrisvarasjóðnum, það þarf að gæta vel að því hvernig þeim er beitt og ef vel tekst til munum við geta notað stóran hluta af þeim sjóði sem þar (Forseti hringir.) myndast einmitt til að endurgreiða lánið til baka og vonandi tekst að ávaxta peninginn í millitíðinni.