136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. þessi fögru orð í minn garð. Ég leyfi mér þó að minna á orð míns ágæta formanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem er bæði búinn að segja hér í þessari pontu og á öðrum opinberum vettvangi nákvæmlega það sama og ég sagði áðan, að hann telji ábyrgð bankastjórnar Seðlabanka, stjórnar Fjármálaeftirlits og þessarar ríkisstjórnar það mikla að þar eigi fólk að víkja, svo því sé til haga haldið í þessari umræðu.

Ég velti hins vegar fyrir mér hvort hinn ágæti þingmaður, sem vissulega nefndi að þingmenn Samfylkingar hefðu leyft sér að gagnrýna Seðlabankann — þá spyr ég: Munu aðgerðir fylgja orðum? Ætlar Samfylkingin að sitja lengi í ríkisstjórn sem styður bankastjórn Seðlabankans eins og hún er núna skipuð? Mér þætti vænt um að vita það því vissulega fór Samfylkingin í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og gaf honum tækifæri á að sitja enn lengur við völd. Mér þætti vænt um að vita hvort Samfylkingin ætli áfram að halda Sjálfstæðisflokknum við völd.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi um ríkisfjárlögin vil ég segja að þó að gert sé ráð fyrir ákveðnu svigrúmi á næsta ári er hins vegar reiknað með mjög hraðri niðurgreiðslu skulda sem gæti vissulega átt eftir að reyna mjög á samneysluna, velferðarkerfið og önnur ríkisútgjöld. Í liðunum á eftir er einmitt rætt um að það standi til, í lið 14 t.d., þar sem rætt er um fjárlög ársins 2010 og svo 2011. Ég hef líka áhyggjur af langtímaáætlunum og hvort við munum hafa nokkra möguleika á að endurskoða þessa skilmála eftir því sem á lánstímann líður.