136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að minna á vegna orða hv. þingmanns að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur sérstaklega lagt lykkju á leið sína (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að styðja Davíð lengi?) til þess að undirstrika að bankastjórn Seðlabankans eigi ekki að sæta ábyrgð á ákvörðunum sem hún hefur tekið. Hann hefur sagt að ríkisstjórnin eigi að bera ábyrgð á ákvörðunum sem bankastjórn Seðlabankans hefur tekið en ekki seðlabankastjórn vegna þess, eins og hann hefur kosið að rangtúlka seðlabankalögin, að Seðlabankinn heyri undir ríkisstjórnina. Hann hefur með öðrum orðum sérstaklega lagt lykkju á leið sína (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að styðja Davíð lengi?) til að verja bankastjórn Seðlabankans og koma í veg fyrir að hún taki ábyrgð á augljósum mistökum sem hún hefur orðið uppvís að. (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að …?) Þetta er staðreynd og ég vil minna á til frekara sannindamerkis að ritstjóri Fréttablaðsins eyddi í dag heilum leiðara í að benda á að sú skjaldborg sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að slá lengi skjaldborg um Davíð?) hafa slegið um Seðlabankann komi í veg fyrir að hægt sé að koma fram ábyrgð á hendur Seðlabankanum og framkvæmd peningamálastefnunnar. (Gripið fram í: Úúú.)

Hitt er svo aftur annað mál (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að standa skjaldborgina lengi?) að afstaða Samfylkingarinnar til bankastjórnar Seðlabankans liggur ljós fyrir og hefur ítrekað komið fram. (Gripið fram í: Styður ríkisstjórnina, styður Davíð.) Ég vil benda hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, sem hefur tekið að sér hlutverk höfuðgjammara í þessari umræðu, á að það er ekki um auðugan garð að gresja hvað varðar valkosti, þ.e. Samfylkingin gæti vissulega hætt ríkisstjórnarsamstarfi í dag en þegar valkosturinn er augljós, sem er (Gripið fram í: Kosningar.) hinn aðdáunarfulli þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar (Gripið fram í: Kosningar.) – græns framboðs sem bíður eftir því einu að fá að sitja við stjórnvölinn í Seðlabankanum að óbreyttri yfirstjórn, held ég að það væri ekki til góðs að rýma sætin fyrir þessum hópi. (Gripið fram í: Ha, ha!)