136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessi fögru ástarorð hv. þingmanns Samfylkingarinnar sem greinilega vildi að hann væri í ríkisstjórn með Vinstri grænum. Ég leyfi mér að túlka þetta sem svo, rétt eins og hann kýs að túlka orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að allir eigi að víkja, að hann sé að slá sérstaka skjaldborg um seðlabankastjórnina. Ég get einhvern veginn ekki séð þá túlkun á orðum hv. þingmanns. (Gripið fram í: Spurðu Þorstein Pálsson.) Já, þið hafið kannski lært túlkunarfræði í sama skóla en ég leyfi mér að segja að ef Samfylkingunni væri svo umhugað um að gera breytingar er ég nokkuð viss um að hún mundi njóta til þess stuðnings frá Vinstri grænum. Ef þeir ákvæðu að slíta stjórnarsamstarfinu af einhverjum orsökum held ég að það yrði boðað til kosninga og væri það ekki besta leiðin fyrir alla?