136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi áætlun sem hér er til umræðu um samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er mikilvægt plagg fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Það hefur dregist óþarflega lengi að koma þessu máli í höfn og það hefur valdið íslensku efnahagslífi miklu tjóni. Heimilin og fyrirtækin hafa beðið af því tjón og við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegu ástandi í gjaldeyrisviðskiptum ef ekki tekst að koma þeim í lag. Lánið sem kemur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í kjölfar þeirrar áætlunar sem liggur nú fyrir Alþingi að samþykkja mun gera okkur kleift að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf. Það er brýnt hagsmunamál. Við erum komin í stöðu sem við vorum öll farin að vonast til að sjá aldrei aftur. Ástand hafta og skömmtunar, tvöfalds markaðar með gjaldeyri og svartamarkaðsbrasks með gjaldeyri. Þess konar ástand að fyrirtæki sem eiga gjaldeyri halda eign sinni erlendis vegna þess að þau geta ekki treyst á að fá aðgang að gjaldeyrinum síðar ef þau taka hann hingað til landsins.

Margt hefur verið sagt á undanförnum vikum og margar tröllasögur sagðar af þeim skilyrðum sem aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði háð. Það er því sérstakt fagnaðarefni að þau skilyrði liggja nú fyrir í opinberri umræðu og ljóst er að þar er ekki neitt að finna sem réttlætir þær hrakspár og gífuryrði sem höfð hafa verið í frammi á undanförnum vikum, einkanlega af hálfu þingmanna Vinstri grænna. Þvert á móti er um að ræða mjög eðlilega og heilbrigða efnahagsáætlun sem byggir á þeim aðferðum sem bestar eru og líklegastar til árangurs til að ná því markmiði sem við verðum að ná, þ.e. að tryggja eðlileg gjaldeyrisviðskipti og koma gjaldmiðlinum á flot. Skilyrðin eru hófleg og eðlileg og munu koma gjaldeyrismarkaðnum í gang og samskiptum við okkar nánustu samstarfs- og viðskiptaríki í eðlilegt horf að nýju.

Í umræðunni hefur aðeins verið talað um Icesave-málið, tengsl þess við þetta mál og þann drátt sem hefur orðið á frágangi mála við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna Icesave-deilunnar. Sumir hafa haft þau orð í frammi að við höfum þurft að lúta í lægra haldi og verið svínbeygð til samninga með einhverjum hætti. Ég held að í því felist allmikið óraunsæi. Staðreyndin var einfaldlega sú að það tók okkur óþarflega langan tíma að sætta okkur við þann raunveruleika sem við stóðum frammi fyrir, kyngja stolti okkar og átta okkur á þeim grundvallarreglum sem gilda um innstæðutryggingar og þeim takmörkunum sem þær reglur eru háðar. Svigrúm okkar var háð því regluverki. Niðurstaðan sem liggur fyrir í því máli er mjög ásættanleg fyrir Ísland og satt að segja framar vonum miðað við hvernig útlitið var í upphafi þessa ferlis. Athyglisvert verður að sjá og fylgjast með því samningaferli sem nú er að hefjast um lok og lúkningu mála hvað Icesave-samningana varðar. Þar er mikið verk óunnið við að ganga frá samningum og koma því máli endanlega í höfn en það er gríðarlega mikilvægt að ljúka því máli í sátt við okkar nánustu samstarfsríki og skapa þar með grunn fyrir eðlileg samskipti við þessi mikilvægustu viðskiptaríki okkar.

Virðulegi forseti. Fyrr í dag var gantast, og kannski með réttu, með að nú stæði Samfylkingin frammi fyrir því verkefni að horfa á fleytingu íslenskrar krónu — að við tækjumst nú á hendur það merkilega og stóra verkefni að endurreisa krónuna, gjaldmiðil sem við höfum haft fyrirvara á mjög lengi. (Gripið fram í: Það hlýtur að vera ljúft.) Það er að sjálfsögðu ljúft, hv. þingmaður, bæði ljúft og skylt vegna þess einfaldlega að ekki verður hjá því komist að setja þennan gjaldmiðil aftur á flot. Það er hins vegar alveg ljóst að hætt er við að verðmyndun með gjaldmiðilinn verði veik og erfið í byrjun og sveiflurnar enn meiri en við höfum séð hingað til vegna þess að ætla má að kaupendahópurinn sé orðinn þrengri og færri vilji liggja með krónur en fyrir hrunið. Við þær aðstæður skiptir trúverðugleiki og traust í efnahagsstjórn og efnahagsstefnu öllu máli. Ekkert getur haft meiri áhrif til þess að skapa stöðugleika í gengi krónunnar en akkúrat yfirlýsing um að hún muni ekki verða til lengi, þ.e. yfirlýsing um að við hyggjumst sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru sem allra fyrst. Reynsla annarra ríkja sýnir að slík yfirlýsing hefur almennt mjög jákvæð áhrif á verðmyndun með viðkomandi gjaldmiðil vegna þess að hún gefur markaðnum vísbendingu um þau stöðugleikaviðmið sem stjórnvöld og Seðlabanki hyggjast sigla eftir í framhaldinu. Þess vegna er það svo að í endurreisn krónunnar er jafnframt fall hennar falið. Ég held að enginn gangi gruflandi að því að krónan er ekki framtíðargjaldmiðill. Meira að segja þingmenn Vinstri grænna átta sig á því líka, þegar yfir þá hellist einhver snertur af raunveruleikaskyni, en tala þá hins vegar um norræna krónu sem er eitthvert fyrirbæri sem þeir hafa ekki (Gripið fram í: Snertur af, ég heyrði ekki hverju?) — raunveruleikaskyni, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Snertur af raunveruleikaskyni.) Þeir tala um norræna krónu sem erfitt er að sjá hvernig á að vera hægt að koma á vegna þess að upptaka hennar mundi fela í sér brot á þjóðréttarskuldbindingum tveggja af fjórum ríkjum sem eiga að taka þátt í verkefninu. En látum það nú vera.

Málflutningur vinstri grænna um norræna krónu sýnir náttúrlega að enginn hefur trú á íslensku krónunni og allir gera sér grein fyrir því að einhver önnur lausn þarf að verða til. Þess vegna er það þannig, eins og ég sagði, að í endurreisn krónunnar er jafnframt innsiglaður dauðadómur hennar. Við endurreisum hana til þess að fá verð á innflutning og útflutning, til þess að koma á eðlilegu flæði gjaldeyris og til að tryggja að við þurfum ekki að búa við hættu á vöruskorti eða annarri óáran. Við vitum þó öll að við erum ekki að reisa gjaldmiðil sem við reiknum með að búa við til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Í þessari áætlun felst ágætur vegvísir fyrir hagstjórnina á næstu missirum og árum. Það er einfaldlega þannig að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með áætlun af þessum toga er nauðsynleg forsenda lánaviðskipta við okkar nánustu nágrannaríki. Því er æskilegt að hún liggi fyrir. Það hefur verið vel tekið í fjármögnun þessa verkefnis af hálfu nágrannaríkja okkar og fyrir það ber að þakka. Ég vil þó sérstaklega nefna hlut Færeyinga. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi orðað það ágætlega þegar hann sagði að það væri vafamál hvort nokkur þjóð hefði nokkru sinni sýnt annarri þjóð annan eins rausnarskap eins og Færeyingar sýndu okkur Íslendingum með því láni sem þeir veittu okkur. Fyrir það ber að þakka og full ástæða er til að ítreka það hér og nú í þessari umræðu.