136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að enginn veit nákvæmlega hvernig til tekst með fleytingu krónunnar. Það skiptir því miklu máli að vandað sé til verka og vel sé unnið. Það er vissulega hætta á að verðbólga geti rokið mjög hátt upp. Ef vel tekst til í þessu efni standa vonir til að verðbólguskotið verði ekki langvinnt og ekki mjög mikið, og í lok næsta árs geti verðbólgan verið komin niður í 4,5%.

Auðvitað er þetta allt annmörkum og fyrirvörum háð en það er einfaldlega enginn valkostur við þetta, hv. þingmaður. Við getum ekki haldið áfram að láta gjaldeyrisvarasjóðnum, sem við höfum í dag, blæða út eins og raunin er núna. Útstreymið er meira en innstreymið og við erum að éta upp gjaldeyrisvaraforðann. Við erum með skömmtun á gjaldeyri. Fjöldamörg starfsemi fær ekki gjaldeyri til eigin nota. Gjaldeyrir til ferðamanna er skammtaður hvað þá heldur annað. Þetta er ástand sem er ekki búandi við og það er alltaf tímabundið ástand því að einhvern tímann klárast gjaldeyrisvaraforðinn. Önnur lausn en sú að setja krónuna á flot er ekki tæk.

Hitt er svo annað mál hvernig ábyrgð á þessu máli er háttað. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að þeir sem ekki hafa sinnt verkum sínum með fullnægjandi hætti axli ábyrgð. Það er mjög mikilvægt að setja á fót rannsóknarnefnd á vegum þingsins sem allra fyrst. Leggja þarf ákveðnar staðreyndir til grundvallar til að við getum síðan metið það hverjir brugðust og hverjir ekki. Ég þykist vita að hv. þingmaður mundi sem skipstjóri — hann vildi auðvitað sæta ábyrgð fyrir að gera mistök en ég held hann mundi ekki vilja sæta ábyrgð fyrir það að olían kláraðist af skipinu eða einhverjir aðrir atburðir (Forseti hringir.) hafi orðið til að stoppa veiðiferðina, atburðir sem hann bar ekki ábyrgð á.