136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður gefst ekki tími til að fara mjög ítarlega í svar í þessu stutta andsvari. En það er algjörlega ljóst að það er ekki í boði að taka upp annan gjaldmiðil um stundarsakir. Það liggur algjörlega ljóst fyrir og því er óþarfi að eyða mikilli orku í að ræða það. Þessi gjaldmiðill sem við búum við er höfuðorsök hins efnahagslega ójafnvægis sem við höfum búið við á undanförnum árum. Þessi gjaldmiðill er höfuðorsök fyrir skuldsetningu heimilanna og skuldsetningu fyrirtækja. Þessi gjaldmiðill er höfuðorsökin fyrir lausafjárkrísunni (Gripið fram í.) sem á endanum varð bönkunum að falli. Ábyrgð þeirra sem enn verja þennan gjaldmiðil er mikil. Við höfum mörg varað við því árum saman að það hlyti að fara illa að halda áfram með óbreyttan gjaldmiðil sem var allt of lítill fyrir íslenskt efnahagslíf og þjónaði hvorki hagsmunum heimilanna né atvinnulífsins. Menn verða einfaldlega að læra af reynslunni, hv. þm. Grétar Mar Jónsson sem aðrir.

Það er gríðarlegur ábyrgðarhluti að halda áfram að verja þennan ónýta gjaldmiðil þegar komið er í óefni. Þessi gjaldmiðill er ekki framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Lausnin er afskaplega einföld. Það er annaðhvort óbreyttur gjaldmiðill til langframa, sem verður aldrei annað en hörmungarástand, eða upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu. Valkostirnir eru skýrir. Það er ekki valkostur að taka upp annan gjaldmiðil um stundarsakir enda mundi það einungis valda því að við mundum skuldsetja samfélagið jafnmikið og nú er en jafnframt glata algjörlega möguleikum okkar á því að koma okkur með eðlilegum hætti inn í Evrópusambandið og fá þar aðkomu að peningamálastjórn með öðrum ríkjum og fá jafnmörg atkvæði um ákvörðun stýrivaxta og Þýskaland. Það eru nú ekki verri kjör sem okkur bjóðast þar og ekki meira áhrifaleysi sem okkur býðst en það að við fengjum jafnmörg atkvæði og þær hundrað milljónir manna sem byggja Þýskaland.