136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:55]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að það eru fáir hér í þingsalnum og engir stjórnarliðar hlusta á mál okkar. Það er mjög hvimleitt þegar verið er að ræða jafnmerkileg mál og það að búið er að setja heila þjóð á hausinn. (HSH: Ég skal hlusta á þig.) Það er verið að reyna að taka lán en við stöndum frammi fyrir því að engir úr stjórnarflokkunum sitja hér í þingsal og taka þátt í umræðunni og verja sig með einum eða neinum hætti. Það er sorglegt til þess að vita að hlutirnir skuli vera með þessum hætti.

Nú er formaður þingflokks Samfylkingarinnar kominn í salinn og við erum fjögur í þingsalnum eins og stendur. Nú hópast þeir hérna inn, tveir í viðbót úr Vinstri grænum, en við erum samt allt of fá og engir fulltrúar frá ríkisstjórninni, engir ráðherrar til að svara spurningum okkar sem erum að ræða þessi mál.

Ég hef verið að ræða um þau kjör sem eru á þessum lánum. Ég spurði í andsvörum í dag um vexti, hvaða vexti við værum að fá eða hvort þetta væri vaxtalaust í einhver ár og hvenær ætti að vera búið að borga þetta. Þá er ég að tala um lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við fengum engin svör við því að neinu gagni. Í sama skipti var verið að spyrja um lán frá öðrum þjóðum sem ætla að lána okkur, hvað eigum við að borga í vexti af þeim lánum og til hversu langs tíma þau lán eru og annað í þeim dúr.

Fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að skuldirnar væru 1.400 milljarðar í það heila sem þyrfti að borga vexti af. Ef maður gefur sér að vextir séu 5% erum við að tala um að á næsta ári borgum við 70 milljarða í vexti af þeim viðbótarlánum sem við erum að taka þessa dagana.

Það er sorglegt til þess að vita að til að fá þessa fyrirgreiðslu þurfum við að falla frá því að fara með mál okkar í gerðardóm og láta reyna á það hvort við þurfum að borga þessi Icesave-lán. Það er ljóst að búið er að semja okkur frá því. En sá þáttur sem snýr að því að fara í málaferli við breska ríkið út af hryðjuverkalögunum stendur væntanlega enn og við eigum að láta á það reyna. Við eigum að sýna Bretum fulla hörku og áttum að gera það strax og bankarnir hrundu og þeir settu á okkur þessi hryðjuverkalög. Þá áttum við að sýna þeim klærnar og berjast fyrir rétti okkar og afgreiða þá eins og við gerðum þegar við vorum í þorskastríði hér á árum áður.

Við ætlum síðan að taka þá miklu áhættu, að mati margra hagfræðinga, að setja krónuna á flot í algjörri óvissu. Sömu mennirnir, bankastjórarnir, seðlabankastjórnin og bankastjórar Seðlabankans, eiga svo að fara með þessi mál; Fjármálaeftirlitið og aðrir og náttúrlega sömu ráðherrarnir, sama ríkisstjórnin sem er sorglegt að horfa upp á. Við þurfum að fá kosningar sem fyrst. Það er nauðsynlegt að þeir sem þurfa að moka flórinn hafi til þess umboð frá þjóðinni eftir þessar hörmungar og ég legg það til.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að stofnaður verði auðlindasjóður og veiðiheimildir verði boðnar upp. Allar veiðiheimildir verði innkallaðar, allur kvóti á Íslandi verði innkallaður og leigður út til að byggja upp auðlindasjóð sem gæti hjálpað til við aðstæður eins og þær eru í dag.

Það er augljóst að við þurfum að setja mikið eigið fé í bankana, verið er að tala um 385 milljarða. Við vitum ekkert hvernig það verður. Væntanlega verður gefið út skuldabréf fyrir hvern banka og síðan mun ríkið verða að borga það og þetta verður væntanlega tekið af skattpeningum þannig að við megum reikna með því að skattar hækki allsnarlega á næsta ári.

Sama má segja um Seðlabankann. Seðlabankann vantar peninga. Talað er um 180–200 milljarða þannig að við erum í hreint hrikalegri stöðu og höfum aldrei séð neitt þessu líkt. Manni finnst því sorglegt ef sama fólkið sem kom okkur í þessa stöðu og sama yfirstjórn peningamála, bæði Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, eigi svo að höndla með þessa peninga. Við eigum að fara að þeirra ráðum um það hvað eigi að gera og hvernig — að ógleymdum ráðherrunum sem hafa brugðist vaktskyldu sinni og ríkisstjórnin öll. Þetta er sorgleg staða. Og þegar verið er að tala um þessi Icesave-lán þá er það spurning um aðrar þjóðir eins og Mön og Belgíu og önnur lönd. Eru þau inni í þessum samningum eða eigum við eftir að fá Austurríki og einhverja fleiri banka úr fleiri löndum yfir okkur, banka sem við erum ekki með inni í þessu dæmi í dag? Það getur svo sem vel verið.

En þetta bitnar mest á fjölskyldunum í landinu, á fyrirtækjum, atvinnurekstri og sveitarfélögum. Allt er í uppnámi hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Ekki sér fyrir endann á þessu. Maður sér ekki hvað menn ætla að gera. En maður óttast að sú tilraunastarfsemi að setja krónuna á flot verði til þess að fjölskyldur sem hafa verið í þeirri stöðu að vera með sitt á hreinu eða til þess að gera muni lenda í vandræðum.

Ég hef lagt það til og minn flokkur að verðtrygging verði tekin af í þrjá til fjóra mánuði á meðan versta höggið er að ríða yfir og jafnvel framlengt ef þyrfti. Nú eru allar skuldir í ríkissjóði. Ríkið á allar þessar skuldir og því hefði verið hægt að gera það. Það er hægt að bjarga fjölskyldunum eins og fyrirtækjum og öðru sem manni sýnist að nú eigi að fara að mismuna. Ég vara Alþingi við því að mismuna atvinnufyrirtækjum með sérstaka fyrirgreiðslu um að klippa skuldir af þeim í meira mæli en af fjölskyldunum.

En það þarf að halda áfram og við þurfum að reyna að auka atvinnu í landinu. Við þurfum að reyna að standa að því, bæði til lands og sjávar, að búa til fleiri störf og reyna að byggja upp. Við erum með frumvarp í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd um að leyfa innflutning á fersku kjöti. Ég hef lagt til að það eigi að stoppa það að minnsta kosti í eitt ár. Síðan erum við með ýmsa möguleika í að nýta orku í jörðu, gufuorku, og það eigum við að reyna að gera ef hægt er að útvega fjármagn í það að halda áfram að búa til fyrirtæki sem geta búið til orku og selt fyrirtækjum í landinu. Eins er með fallvötnin, við verðum að halda áfram að reyna að virkja ef okkur tekst að fá fjármagn í það.

Síðan er það það sem snýr að sjávarútveginum. Það er sjálfsagt að bæta við fiskveiðikvóta. Látum ekki fræðimennina á Hafrannsóknastofnun koma okkur í klessu eins og fræðimennirnir, hagfræðingarnir og lögfræðingarnir, sem hafa verið að stýra margumræddum stofnunum hafa gert. Pössum okkur á því að láta þá ekki koma okkur í meiri vanda en við erum í með því að standa í vegi fyrir því að við nýtum á eðlilegan og heilbrigðan hátt auðlindir okkar í hafinu. Það eru nefnilega margir próflausir fiskifræðingar, sem hafa stundað sjómennsku og verið skipstjórar í 20–30 ár og lengur, sem vita miklu meira og betur en fiskifræðingar.