136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Þá lítur loks dagsins ljós það samkomulag sem gert var á bak við þing og þjóð og tilkynnt um 24. október sl., fyrir hartnær fjórum vikum. Það er gott svo langt sem það nær en við skulum ekki gleyma því að það var DV sem birti þetta samkomulag fyrst síðasta mánudag í heilu lagi. Það er mín trú, í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram frá því að bankakreppan skall á, að það hafi verið sú birting sem neyddi ríkisstjórnina til þess að leggja málið hér fram á mánudaginn var. Áður hafði því verið lýst yfir að þingmenn mundu ekki fá samkomulagið fyrr en því yrði dreift á fundi í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það var sem sagt fyrirhugað á miðvikudegi og það var sú tímasetning sem rædd hafði verið. Menn verða að koma með aðrar sannanir en þær — eins og hér var nefnt áðan, eins og báðir hæstv. ráðherrar og formenn stjórnarflokkanna sögðu: Við fengum undanþágu, við fengum leyfi til þess að birta þetta. Ég minni bara á að þeir höfðu áður harðneitað að skjalið yrði birt áður en stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði afgreitt það. Það er í takt við annað í þessu öllu saman.

Það er eftirtektarvert að reyna að skýla sér á bak við vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um birtingu á skjali sem er einhliða yfirlýsing, eins og segir í fylgiskjali I með þessari þingsályktun: „Viljayfirlýsing um áform íslenskra stjórnvalda.“ Þetta er einhliða yfirlýsing.

Í 27. tölulið yfirlýsingarinnar segja, með leyfi forseta, hinir undirrituðu, sem eru Davíð Oddsson og Árni M. Mathiesen:

„Við veitum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum leyfi til að birta þessa viljayfirlýsingu“ o.s.frv.

Það er ekki á þessu að sjá að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi bannað mönnum að birta þetta eða sýna þingmönnum þetta.

Ég hlýt líka að spyrja: Hvar er enski textinn af þessu skjali sem sagt er að hafi verið undirritað 3. nóvember sl. nema 9. gr., út af Icesave, sem var breytt á laugardaginn var, þann 15., og er getið um í inngangi greinargerðar? Hvar er enski textinn og hvar er undirritaða plaggið? Frú forseti. Það er nefnilega munur á þeim skjölum og þeim textum sem birtust annars vegar í DV og hins vegar í því skjali sem lagt er fyrir Alþingi, og það er algjörlega óásættanlegt að svo sé. Það hlýtur að verða að kalla eftir því í nefnd hvaða breytingar hafi verið gerðar á þessum textum.

Ég kem strax auga á nokkur atriði. Ég ætla að láta mér nægja að nefna eitt og það varðar 8. liðinn, umdeilt mál sem færustu lögmenn þjóðarinnar telja að sé stjórnarskrárbrot. Ákveðið var hér á fimmtudaginn var, gegn mótatkvæðum vinstri grænna, að keyra gömlu bankana áfram í allt að tvö heil ár, jafnvel þótt þeir séu gjaldþrota, þvert á lög um gjaldþrot — keyra þá áfram í greiðslustöðvun. Í textanum, sem DV birti á mánudag, segir á íslensku að reka eigi bú gömlu bankanna í greiðslustöðvun undir umsjá dómskipaðs skiptastjóra. Það er eins og gjaldþrotalögin gera ráð fyrir, að dómur skipi skiptastjóra í þrotabúi.

Nú þegar plaggið kemur fyrir Alþingi, plaggið sem er sagt hafa verið undirritað 3. nóvember sl., segir í 8. gr. að aðstoðarmaður eigi að vera við greiðslustöðvunina sem þarna komi að. Eins og þar segir, með leyfi forseta:

„… en skipan hans hlýtur staðfestingu dómstóla.“

Hér er um tvö algjörlega óskyld mál að ræða og skýringa er ekki að leita í öðru en þeim afglöpum sem meiri hluti Alþingis samþykkti hér síðasta fimmtudag á gjaldþrotalögunum, að heimila Fjármálaeftirlitinu og skilanefndunum að reka gjaldþrota fyrirtæki í allt að tvö ár. Morguninn sem þetta var kynnt í viðskiptanefnd kom Viðskiptablaðið út og hvað stóð þar? Þar stóð að leita ætti eftir rekstrarleyfi fyrir gömlu bankana til þess að halda rekstri þeirra áfram þennan tíma. Við eigum eftir að sjá það, það getur vel verið að það sé búið að gefa leyfið út, Fjármálaeftirlitið sé búið að gefa það út.

Þetta er einn liður sem ég hef komið auga á, frú forseti, að hefur breyst á milli þeirra tveggja plagga sem hafa birst. Ég hlýt að kalla eftir því að upplýst verði í nefndinni hvernig á þessu stendur. Þetta er dýrkeypt lán eins og ég nefndi í andsvari hér fyrr í dag. Við þurfum að taka á okkur 660 milljarða kr. ábyrgð á Icesave-skuldbindingunum til þess að fá þessa sex milljarða dollara að láni frá IMF og fara inn í það skelfilega prógramm sem þeir eru þekktir fyrir. Menn spyrja sig: Hvað á að gera við þessa peninga?

Í 19. gr., sem reyndar er sú eina sem hafði birst áður en DV birti plaggið — Davíð Oddsson hafði af rausn sinni birt einn tölulið 19. gr. þar sem fjallað er um stýrivexti, en í þeirri grein er einnig talað um að jafnvel eigi að fara að nota þennan dýrkeypta og takmarkaða gjaldeyrisvaraforða til að styðja við gengi krónunnar, til þess að halda uppi genginu.

Í Morgunblaðinu í gær bentu þrír virtir hagfræðingar á þá miklu hættu sem því er samfara — og reynslu sem á því er, margföld reynsla af hliðstæðum gjaldeyriskreppum — að þegar gjaldeyrir og gjaldeyrisvaraforði er notaður með þessum hætti til að styðja gjaldmiðilinn hverfur þorri hans einfaldlega í vasa spákaupmanna og landið situr eftir verr sett en áður.

Þetta eru stór orð og ekki hefur mikið verið fjallað um þau af hálfu ráðamanna þjóðarinnar á þessari ögurstundu. Menn viska því einfaldlega frá sér. Þegar menn 24. október sl. leituðu á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hnjánum og töldu sig mundu fá þar fyrirgreiðslu einn, tveir og þrír hættu menn að hugsa um þetta. Þeir skrifuðu upp á það sem þarna var, það var gjaldeyriskrísa og þeir ætluðu að hafa þetta svona.

Þessir hagfræðingar þrír sem birta grein í Morgunblaðinu í gær benda á að á þeim þrem vikum sem liðnar eru, meðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft umsókn Íslands til — hvað eigum við að segja? — í gíslingu kallaði hv. formaður utanríkismálanefndar, Bjarni Benediktsson það hér áðan — þá hefur ýmislegt breyst. Það er engin gjaldeyriskrísa lengur að þeirra mati. Þvert á móti, segja þeir, hafi skapast markaður með íslensku krónuna, gengið hafi að vísu fallið nálægt 10% á innanlandsmarkaði, erlendis hefur gengismarkaður fyrir krónuna hins vegar myndast á nýjan leik og þar hefur gangverð krónunnar hækkað og færst nær skráðu gengi innan lands. Sem sagt engin gjaldeyriskrísa. Þeir efast um það hér, þessir hagfræðingar, að þörf sé fyrir þetta lán eins og staðan nú er.

Menn vita svo sem ekki hvað á að gera við þessa peninga en ég vil vekja athygli á því að Financial Times segir í gær að önnur alda fjármálakreppunnar sé að skella á Íslandi. Þar er vitnað í talsmann frá Seðlabankanum sem segir að 400 milljarðar kr. í jöklabréfum bíði þess að renna út úr landinu um leið og gjaldeyrisviðskipti verða gefin frjáls. Það mun gerast einn, tveir og þrír eins og gerðist í Argentínu, ef menn ætla sér að fara eftir 4. tölul. 19. gr. og púkka undir krónuna hvað sem það kostar og nota þennan gjaldeyrisvaraforða í það. Það má ekki gerast, herra forseti.

Það versta í þessu er hins vegar að það eru sömu menn sem eiga að sýsla um þessi mál. Það eru sömu menn sem eiga að taka við þessum peningum, sömu menn og hafa verið að klúðra öllu hér frá 6. október og enginn hreyfir sig um set. Því til vitnis er frétt úr blöðunum í dag um að gamli Glitnir, sem kannski er búinn að fá starfsleyfi eins og ég nefndi áðan, hefur fengið nýjan framkvæmdastjóra. Hver skyldi það vera? Það er fyrrverandi framkvæmdastjóri á sjávarútvegssviði Glitnis banka hf. Svona er þetta nú, herra forseti. Menn sitja sem fastast á öllum vígstöðvum, bæði í bönkunum, í Fjármálaeftirlitinu, í Seðlabankanum og ekki síst hér á (Forseti hringir.) ríkisstjórnarstólunum sem reyndar eru tómir núna. Ég vildi óska þess að (Forseti hringir.) þessir tómu stólar hér mættu vera fyrirboði þess að kosið verði sem fyrst og þeir verði (Forseti hringir.) skipaðir nýju fólki.