136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki á mér setið að kveðja mér hljóðs hér aðeins um fundarstjórn forseta. Hér erum við í dag að ræða eitt stærsta mál sem íslenskt samfélag er að takast á við og mun takast á við hér á næstu árum og jafnvel áratugi. Það er verið að leggja til að íslenska þjóðarbúið verði skuldsett um mörg hundruð milljarða kr. Hæstv. forsætisráðherra sagði í framsöguræðu sinni í morgun að þingið mætti þakka fyrir örlætið af hálfu ríkisstjórnarinnar að þetta mál kæmi yfirleitt til kasta þingsins.

Mér finnst það fádæma dónaskapur að hæstv. ráðherrar skuli ekki sitja hér og taka þátt í umræðunni, taka við fyrirspurnum eða athugasemdum eða röksemdum sem hér koma fram og svara þeim, taka þátt í rökræðu um þetta mál. Ég hlýt að gera kröfu til þess að hæstv. forseti sjái til þess að einhverjir ráðherrar séu viðstaddir umræðuna þannig að hægt sé að eiga við þá orðaskipti.