136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við höfum rætt í allan dag tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við höfum auðvitað fyrr í haust margoft rætt í sölum Alþingis um ástandið í efnahagsmálum, um tildrög þess hvernig komið er og um þau úrræði sem til ráða eru til að draga úr þeim skaða sem efnahagskreppan, bankahrunið leiðir yfir íslenska þjóð. Að sjálfsögðu hafa verið skiptar skoðanir um málið milli fulltrúa stjórnmálaflokkanna og þess vegna innbyrðis en við erum nú komin í þá stöðu að öll sund virðast einhvern veginn vera að lokast.

Spurt er um það og það kom m.a. fram í framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra að hann teldi mikilvægt að þessi umræða færi fram á Alþingi, ekki sérstaklega til að Alþingi fengi tækifæri til að ræða málið heldur til að kalla fram hverjir styddu það og hverjir styddu það ekki, eins og hann orðaði það. Honum þótti sem sagt mikilvægt að fá fram atkvæðagreiðslu um málið og það er eðlilegt og sjálfsagt en miklu mikilvægara er að hugmyndafræðin á bak við það sé til umræðu og við ræðum hvað orsakaði þá stöðu sem við erum komin í og hvernig menn ætla síðan að vinna úr henni til framtíðar. Það getur vel verið að miðað við þá stöðu sem við erum í sé ekki um marga kosti að ræða í raun og veru en það kemur ekki í veg fyrir að við getum leyft okkur að gagnrýna það hvernig komið er og hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum að undanförnu. Nú er að koma betur og betur í ljós að ríkisstjórninni mátti vera ljóst af mörgum fundum sínum með forsvarsmönnum Seðlabankans í hvert stefndi án þess þó að hafa aðhafst a.m.k. nægilega mikið til að koma í veg fyrir efnahagshrunið. Það kann vel að vera að ríkisstjórnin hafi ákveðið að láta skoða einhver tiltekin atriði og verið með einhverja hluti í nefnd en það hefur þá ekki komið nægilega mikið út úr því til að forða þeirri stöðu sem við erum nú í.

Til dæmis kemur fram í fjölmiðlum í dag, í Morgunblaðinu, að nefnd hafi verið að störfum að frumkvæði hæstv. viðskiptaráðherra til að fjalla um það hvort Ísland eigi að takmarka ábyrgð á bankainnstæðum. Þar er sagt frá því að Ísland hafi ekki nýtt sér heimild til að takmarka ábyrgð á innstæðum í bönkum við ákveðna aðila líkt og heimilt er í tilskipun Evrópusambandsins og er vísað til þess að heimilt sé í þeirri tilskipun að takmarka ábyrgð á innstæðum fagfjárfesta svo sem ríkja, sveitarfélaga, tryggingafélaga o.s.frv. Þessi heimild var ekki nýtt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hún var hins vegar nýtt af hálfu Breta og Hollendinga og kemur nokkuð á óvart.

Ég hef áhuga á að vita hversu stór hluti þessara aðila er í þeim skuldbindingum sem við erum að takast á herðar í gegnum þetta Icesave-samkomulag í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Mér finnst mikilvægt að þær upplýsingar liggi fyrir og ef ekki er hægt að reiða svör fram við þeim hér að þau komi þá inn til þingnefndar.

Það er hægt að ræða þetta mál lengi og mikið en það eru nokkur atriði í skilmálunum sem ég vil velta hér upp af því að mér finnst þau óljós eða tel að koma þurfi fram frekari skýringar á.

Talað er um að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu. Mér finnst mikilvægt að í því sambandi komi fram á hvaða kjörum er verið að tala um þessar skuldbindingar, bæði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einnig frá öðrum ríkjum. Þær upplýsingar verða að liggja fyrir vegna þess að annars er Alþingi að veita þessa heimild með bundið fyrir augun. Þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir.

Í 5. tölulið þessa samkomulags er greint frá því að ákveðið skipulag sé komið á við skil yfirteknu bankanna og leiðir til að hámarka heimtur eigna með gagnsæjum hætti. Til að samræma stefnu og aðgerðir stjórnvalda hafi verið skipuð nefnd sem bankasérfræðingur stýri og í eigi sæti fulltrúar frá forsætisráðuneyti, Fjármálaeftirliti, Seðlabanka, fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Sem sagt frá þeim aðilum sem brugðust að sjálfsögðu í þessu máli. Þetta á allt að vera á höndum sömu aðila.

Í 7. tölulið er sagt að áformað sé að selja eiginfjárframlag ríkisins um leið og jafnvægi kemst á og markaðsskilyrði leyfa. Það á sem sagt að endurtaka einkavæðingu bankanna.

Ég hlýt að velta því fyrir mér og spyrja hvort stjórnvöld séu ekkert brennd af því sem hér hefur verið að gerast á undanförnum vikum. Ætli það sé ekki nær að bíða aðeins og sjá til hvernig þessi mál þróast og a.m.k. gefa þjóðinni fyrirheit um að farið verði í málið með áþekkum hætti og gert var annars staðar á Norðurlöndunum, í Noregi og Svíþjóð, í kjölfar bankahrunsins þar fyrir rúmum áratug síðan, en þar á ríkið enn þá umtalsverðan hlut í bönkunum.

Ég hef þegar spurt um undanþáguna sem mér finnst mikilvægt að sé svarað.

Í 15. lið er vísað til þess að samræma þurfi fjármál sveitarfélaga áformum ríkisins í ríkisfjármálum. Nú er alveg ljóst, og við höfum rætt það hér að undanförnu og hæstv. fjármálaráðherra líka, að sveitarfélögin verða fyrir miklu tekjutapi vegna þessa ástands en um leið verða þau fyrir auknum útgjöldum vegna þess að þau þurfa að taka á fjárhagsaðstoð. Félagslegur vandi eykst, það verður aukinn vandi hjá fjölskyldum að standa undir kostnaði í skólum, eins og leikskólunum, við skólamáltíðir, frístundaheimili o.s.frv. og sveitarfélögin munu þurfa að leggja meira af mörkum í þessu sambandi.

Við þingmenn Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu höfum einmitt heimsótt allar eða flestar þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar til að kynna okkur hvernig þetta efnahagsástand blasir við því fólki sem vinnur með fjölskyldurnar í borginni og það er alveg ljóst að á þessu þarf að taka. Hvernig á að taka á vanda sveitarfélaganna?

Í 16. lið segir: „Hið opinbera mun ekki taka á sig frekari skuldbindingar vegna bankakreppunnar.“

Hvað með afkomu atvinnulífs og heimilanna? Ætlar ríkisvaldið ekkert að koma inn í það mál og reyna að leggja þar eitthvað af mörkum?

Síðan segir í 17. lið: „Til að koma í veg fyrir öldu gjaldþrota og auka enn á þann samdrátt sem þegar er kominn fram teljum við það vera forgangsverkefni að Seðlabanki Íslands komi á stöðugleika í gengi krónunnar.“

Hvernig? Með því að hækka vexti. Það fyrsta sem var gert var að hækka vexti í 18% og boðað að von væri á meiru eins og segir í 19. tölulið og var að hluta til birt á bloggsíðu Seðlabankans fyrir nokkru. Svo er talað um að stjórnvöld séu reiðubúin að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar. Það er auðvitað lykilspurning. Við höfum áhyggjur af þessu og þær eru rökstuddar og það eru ekki bara þingmenn úr stjórnarandstöðunni sem hafa áhyggjur af þessu. Það hafa komið fram rökstuddar áhyggjur frá fræðasamfélaginu í hagfræði líka og stjórnvöld virðast ekki svara þessu á neinn hátt. Það er sem sagt ákveðið að nota á IMF-lánið, Alþjóðagjaldeyrissjóðslánið, til sveiflujöfnunar til að stýra gengi krónunnar. Það er ekki hægt að fullyrða hæstv. forseti, að það mistakist en þetta getur verið stórhættulegt. Og ef það tekst ekki, sem eru jafnvel meiri líkur á, eru afleiðingarnar geigvænlegar fyrir samfélagið, fyrir þjóðarbúið og fyrir komandi kynslóðir.

Mestu máli skiptir nú að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi, fjöldagjaldþrot fyrirtækja og það er á þeim vettvangi sem stjórnvöld eiga að beita sér. Og ef við erum í þeirri stöðu, sem ég ætla ekki að gera lítið úr, að erlendan gjaldeyri þurfi inn í efnahagskerfið til að koma hjólum atvinnulífsins í gang á að nota þær skuldir sem ríkið ætlar að taka á sínar herðar til þess að hjálpa fjölskyldunum, forða þeim frá gjaldþroti, forða fyrirtækjunum frá gjaldþroti og koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það er meginverkefnið, virðulegur forseti. Og það á að keyra niður vextina og þetta var „det rene vanvid“ eins og maður segir á góðu máli að keyra vextina upp með þeim hætti sem Seðlabankinn ákvað. Það eru þeir sem eru að drepa fjölskyldur og fyrirtæki. Engin atvinnugrein í landinu ber þessa háu vexti nema kannski vændi og eiturlyfjasala og ég trúi því ekki að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um vaxtahækkunina til þess eins að þær atvinnugreinar geti borið sig.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum í þessari atrennu. Ég hefði viljað segja margt fleira um þetta skjal og úr þeim gögnum sem hér liggja fyrir og ég mun því óska eftir að verða settur á mælendaskrá á nýjan leik.