136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að inna hv. þm. Birgi Ármannsson eftir því hversu langt menn eru tilbúnir í stjórnarherbúðunum til að ganga varðandi gjaldeyrisvaraforðann, hversu miklu menn eru tilbúnir til að eyða til að setja undir krónuna. Þetta er mjög mikilvæg spurning. Hér er verið að tala um að skuldsetja land og þjóð til nokkurra kynslóða, við erum að tala um 1.400 milljarða kr. Og af því að hæstv. forsætisráðherra kallaði þetta talnakúnstir hjá formanni Vinstri grænna í morgun kom það bara fram á fréttamannafundi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hélt í dag að skuldbindingarnar, lánin sem Ísland þyrfti að taka væru 10,2 milljarðar dollara.

Við vitum ekkert hver áætlun ríkisstjórnarinnar er um ráðstöfun þessa fjár. Við erum að tala um að fá 5 milljarða dollara að láni. Hversu mikið eru menn tilbúnir að nota til að greiða niður gjaldeyri fyrir útlendinga, fyrir þá sem eiga hér jöklabréfin? Á vef Financial Times kemur fram í gær að 400 milljarðar kr. bíði þar eftir að renna út. Er hv. þm. Birgir Ármannsson tilbúinn til að nota þetta lán í það?