136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:43]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru klókindi hjá hv. þingmanni að skjóta sér inn í andsvar við ræðu mína og nýta það til þess að ávarpa hæstv. fjármálaráðherra en það lýsir náttúrlega ástandinu sem við búum við. Ekki var hæstv. ráðherra í þingsalnum að hlusta á ræðu hv. þingmanns þegar hún talaði. Ó, nei. Þannig að ég skil vel að hún skuli nýta sér það tækifæri sem hún á í andsvari við mig og ávarpa hæstv. ráðherra.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það verði að fara í atvinnuskapandi aðgerðir og við getum ekki gert það án þess að hafa opinbert fé undir. Ég sé ekki betur en að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi í veg fyrir að við höfum svigrúm til þess að fara í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru fyrir atvinnuvegina. Ég held því að við hv. þingmaður deilum þar ákveðnum sjónarmiðum.

Varðandi orkufreka iðnaðinn vildi ég sjá að ríkisstjórnin færi í reglulegt átak í að Íslendingar spöruðu orku, að íslensk fyrirtæki, stofnanir og heimili gerðu átak í því að spara orku. Þá meina ég ekki á litlum skala því ég er sannfærð um að Íslendingar geta sparað gríðarlega mikla orku með orkusparnaðarátaki, svo mikla að við ættum kannski aflögu orku í kerfinu okkar til þess að fóðra fyrirtæki sem þurfa kannski ekkert — ég er ekki að tala um álbræðslur eða orkufrekan iðnað. Við mundum í öllu falli geta búið í haginn fyrir atvinnuvegina okkar með því að fara í orkusparandi átak.

Þetta er eitt af því sem ríkisstjórnin á að vera að vinna í núna. Hún á að viðurkenna að við erum bara rúmlega 300.000. Við erum lítið samfélag. Við þurfum núna að bjarga okkur sjálf og standa á eigin fótum sem aldrei fyrr. Það er ríkisstjórnin sem á að leita út í svörðinn til þjóðarinnar til að finna hvaða hugmyndir eru þar til staðar og á hvern hátt við getum náð höndum saman um að endurreisa íslenskt efnahagskerfi sem vonandi verður þó aldrei eins bólgið og óheilbrigt og það sem við erum nú að yfirgefa.