136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel mjög mikilvægt að við horfum á það hvernig við getum sparað orku. Vil ég þá taka upp nokkrar hugmyndir sem við höfum verið að vinna í í Suðurkjördæmi, Háskólafélag Suðurlands hefur verið mjög virkt í því ásamt Landbúnaðarháskólanum.

Ég held að um 11% af gjaldeyrisútgjöldum okkar fari í eldsneyti. Miklar hugmyndir hafa verið uppi um það hvort ekki sé möguleiki á því að við getum framleitt stóran hluta sjálf af því eldsneyti. Er þá verið að horfa á rafmagnið hér á höfuðborgarsvæðinu, við getum notað rafbíla fyrir þá sem fara stuttar vegalengdir. En það getur hins vegar verið erfiðara fyrir þá sem nota stór vinnutæki eins og í landbúnaðinum.

Horft hefur verið til hugmynda um framleiðslu á lífdísil og þá með repjufræjum. Tilraun er í gangi í Bakkafjöru með Siglingamálastofnun um það hvort hugsanlega væri hægt að keyra nýjan Herjólf á lífdísil. Ýmsar hugmyndir hafa líka verið uppi um framleiðslu á etanóli úr aukaafurðum eins og hálminum sem kemur af bygginu. Ekki má gleyma þeirri miklu fjársjóðskistu sem landbúnaðurinn býr yfir en það er úrgangur frá dýrum sem hægt er að framleiða úr metan. N1 hefur t.d. sett upp eina dælu á höfuðborgarsvæðinu með metani. En það mætti gera miklu meira og það er haugur af efni sem hægt er að framleiða metan úr á því svæði sem ég kem frá Suðurkjördæmi. Takk fyrir.