136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:21]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eitthvað sem íslensk þjóð hefði sjálfsagt kosið að þurfa aldrei að standa frammi fyrir.

Mig langar að gera að umræðuefni og beina spurningum til sjálfrar mín, til ríkisstjórnarinnar og þingsins vegna þess að í þessu efni er margt á huldu. (SJS: Viltu svara þeim líka?) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr mig hvort ég ætli að svara þeim. Ég svara því neitandi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég væri ekki að bera þær fram ef ég vissi við þeim svörin.

Í þingsályktunartillögunni er talað um að hækka stýrivexti í 18%. Við erum þegar búin að því og menn tala um að hægt sé að hækka þá eitthvað frekar. Við erum búin að reka hér peningamálastefnu með stýrivaxtahækkunum árum saman. Í greinargerð frá Seðlabankanum segir að hún sé rúin trausti og ekki hægt að framfylgja henni. Því finnst mér bjartsýni að halda að vextir stöðvi útflæði á tímum sem þessum og þegar traust er ekki til staðar skipta vextir litlu máli.

Í þingsályktunartillögunni stendur að beita þurfi miklu aðhaldi í aðgangi bankanna að lánum frá Seðlabankanum. Verið er að gefa í skyn að þrengja þurfi enn frekar það sem nú er. Ég spyr. Þýðir það að ekki yrði tekið við ríkisbréfum í endurhverfum viðskiptum bankanna? Er þá í raun verið að festa þá innlendu og erlendu aðila sem eiga hér ríkisbréf því að bankarnir munu þá hvort eð er ekki geta keypt þessi bréf af viðskiptavinum?

Í þingsályktunartillögunni er talað um að við séum reiðubúin að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar. Flestir eru sammála um að til lengri tíma sé krónan veikari en efni standa til. Hins vegar getur enn frekari veiking á henni orðið mjög skaðleg að mínu mati. Hún getur aukið verðbólgu. Hún getur aukið gjaldþrot fyrirtækja og atvinnuleysi sem endar með íbúaflótta. Hverjir eru það sem flýja? Það eru að öllum líkindum þeir sem eru menntaðir í iðn-, viðskipta- og verkfræði og fleiri slíkum greinum og afleiðingar þess munu hafa langvarandi áhrif á Íslandi.

Við fleytingu krónunnar hafa menn togast á um hvort styðja beri við krónuna annars vegar og hins vegar hvort ekki beri að gera það. Ef ekki tekst að sannfæra íslensku þjóðina um að taka þátt með skýrri framtíðarsýn við fleytingu krónunnar er hætta á því að innlendur fjármagnsflótti verði töluverður auk erlenda fjármagnsins sem mun leita út úr krónunni. Það getur þýtt að það stóra samlán sem þjóðin hefur nú fengið geti að stórum hluta brunnið upp í þessar varnir og eftir stendur þá gríðarlega skuldsett þjóð með veikt gengi, gríðarlega verðbólguhrinu og allt sem því tilheyrir.

Hvað með rökin um að fleyta krónunni án inngripa, lækka vexti og styðja innlend fyrirtæki og heimili næstu mánuði enn frekar og hafa þá sjóðinn upp á að hlaupa til aðstoðar? Hefur þeim spurningum verið svarað? Erum við meðvituð um þá áhættu sem við erum að taka ef við ætlum að nýta gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of mikla sveiflu krónunnar?

Í þingsályktunartillögunni stendur einnig: Við erum reiðubúin að beita tímabundnum gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskiptum. Það eru höft í gangi núna. Á að fella þau úr gildi við fleytingu krónunnar? Daglega eru uppboð í Seðlabankanum á gjaldeyrisviðskipti. Hvernig verður gjaldeyrisviðskiptum háttað eftir fleytingu? Verður Seðlabanki Íslands eina greiðslumiðlun Íslands við útlönd? Mun Seðlabanki Íslands verða viðskiptavaki með íslensku krónuna sem kaupir og selur allan gjaldeyri landsmanna? Þeim spurningum hefur ekki verið svarað.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að nú vanti útskýringu eða áætlun um hvernig sú peninga- og gengisstefna verði framkvæmd sem fram kemur í tillögu til þingsályktunar sem hér liggur fyrir. Framgöngu þess stærsta hagsmunamáls viðskiptalífs og heimila þarf að útskýra frekar og það þarf að sýna að fagleg vinnubrögð liggi þar til grundvallar.

Ég hef nokkrar áhersluspurningar enn, hæstv. forseti. Hver verður í forsvari fyrir slíkar aðgerðir? Verður það Seðlabanki Íslands? Stjórn Seðlabankans er rúin trausti. Í það minnsta er hún rúin trausti þjóðarinnar og við þingmenn tölum stundum um þjóðina eins og við séum ekki hluti hennar. Við erum hluti af þjóðinni. Stjórn Seðlabankans er rúin mínu trausti. Ég treysti því ekki að sú stjórn sem ákvað að reyna að festa gengi krónunnar í tvo daga, hafði ekki til þess neitt fjármagn og varð að hætta við fari með þá 700 milljarða sem við höfum nú tekið að láni, stjórn Seðlabankans sem hefur rekið peningastefnu um háa vexti þvert á vilja flestra.

Í þingsályktunartillögunni er heldur ekki talað um nein mörk varðandi hvenær grípa á inn í, hversu mikil inngrip verða né á hvaða tímabili. Það er flest mjög óljóst, hæstv. forseti. Hins vegar er ég afar meðvituð um að við getum ekki hafnað þessari leið. Við getum ekki hafnað þessu láni né öðrum þeim lánum sem okkur hafa borist í kjölfar þess neyðarástands sem hér ríkir sem er verra en ástand flestra annarra landa í kjölfar bankahruns víða um heim.

En að mínu mati skiptir líka máli á stundum sem þessum að við sannfærum okkur, við þurfum að sannfæra þjóðina um að við trúum á Ísland og að við höfum sannfærandi framtíðarsýn. Í augnablikinu held ég að hún sé ekki til staðar. Hvernig getum við búið hana til? Hvernig getum við treyst okkur til að fara inn í framtíðina og þau verkefni sem eru fram undan muni styðja við þjóðina, fólkið í landinu og fyrirtækin? Það eru nokkur atriði. Ég held að taka þurfi afstöðu til gjaldmiðilsins, hvort við ætlum að halda honum eða hvort við ætlum að reyna aðild að öðru myntbandalagi. Ég held að svara þurfi þeim spurningum hvaða kostir og gallar eru fólgnir í því að hefja viðræður um aðild að ESB. Ég held að það sé nauðsynlegt til þess að efla traust þjóðarinnar til framtíðar að skipta út af fólki í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti.

Þá tel ég, hæstv. forseti, að það sé möguleiki að sannfæra þjóðina um að við getum komist fram úr þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. En ef fleyta á krónunni án aðgerða og yfirlýsinga af því tagi sem ég nefndi hér að ofan er hætta á að aðgerðir mistakist eingöngu vegna vantrúar innan lands, vegna vantrúar þjóðarinnar á sjálfri sér, vegna vantrúar þjóðarinnar á landinu og vegna vantrúar á þeim aðgerðum sem við stöndum frammi fyrir.