136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðu hennar sem um margt var athyglisverð. Mig langar að beina til hennar nokkrum spurningum. Í fyrsta lagi ræddi þingmaðurinn um vextina og það sem fram kemur í því skjali sem hér er til umfjöllunar að ráðast hefði þurft í umtalsverða vaxtahækkun og jafnvel meiri slík boðuð.

Ég vil í ljósi þess spyrja hana hvort hún taki þá ekki undir með okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og fleirum að það sé forgangsverkefni að lækka vextina.

Í öðru lagi langar mig að forvitnast um það, vegna þess að þingmaðurinn bar hér fram margar spurningar sem margar hverjar hafa komið hér fram í umræðunni í dag frá okkur og fleirum, hvort hún hafi borið þessar spurningar fram í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, hvort hún hafi fengið einhver svör við þeim þar eða hvort þingmönnum stjórnarflokkanna sé haldið í sömu þokunni og okkur í stjórnarandstöðunni.

Síðan talaði hv. þingmaður um að Seðlabankinn væri rúinn trausti sem margir hafa tekið undir. Það blasir nú eiginlega alveg við. En treystir þingmaðurinn Fjármálaeftirlitinu til þess að sinna hlutverki sínu miðað við hvernig það hefur haldið á málum á undanförnum missirum og þess vegna árum? Treystir hún ríkisstjórninni til þess að fara með þessa mörg hundruð milljarða sem eiga að koma hér inn svona miðað við hvernig ríkisstjórnin hefur brugðist við aðvörunarorðum um það hvert stefndi án þess að grípa til tilhlýðilegra ráðstafana?