136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (frh.):

Herra forseti. Erindi mitt var að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra, sem er annar tveggja sem undirritar viljayfirlýsinguna sem hér fylgir með þingsályktuninni.

Spurningarnar sem ég vil beina til ráðherrans eru nokkuð margar. Ég nefndi fyrr í dag að ég saknaði þess að hafa ekki enskan texta og undirritað skjal fyrir framan mig. Nú hef ég fengið enskan texta hjá formanni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þar er því miður staðfest það sem ég sagði áðan að misræmi er á milli íslenska textans og hins enska. Hins vegar er hvorugt plaggið undirritað þannig að ég veit ekki hvað þar er á ferð.

Ég vil byrja á að víkja að 2. gr. og 11. gr. í viljayfirlýsingunni og spyrja hæstv. ráðherra hvernig og hvenær komi að heimilunum í áætlunum og áformum íslenskra stjórnvalda vegna bankahrunsins? Í 2. gr. yfirlýsingarinnar er bent á að aðlögun að áfallinu geti orðið bæði harkaleg og kostnaðarsöm og til lengri tíma litið eigi að lækka hinar miklu skuldir hins opinbera með viðvarandi aðhaldi í ríkisfjármálum.

Í 11. gr. segir að stjórnvöld muni fara yfir lagarammann um gjald- og greiðsluþrot þannig að taka megi á niðurfærslu skulda og heimtu eigna í bönkum, fyrirtækjum og hjá heimilum.

Ég finn í fljótu bragði ekki meira í plagginu um heimilin í landinu og óttast, eins og fleiri sem hér hafa talað, að stjórnvöld feti hina finnsku leið og byrji á að endurreisa bankana, hvað sem það kostar. Ríkissjóður verði númer tvö og allur halli skorinn niður strax eða eins fljótt og verða má. Síðan kemur að fólkinu og er það aftast. Heimilin og fólkið í landinu. Þá má ekkert kosta eins og við sjáum í auglýsingu ríkisstjórnarinnar á föstudaginn var. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í áætlunina að þessu leyti.

Í annan stað spyr ég um 6. og 10. gr. Í 6. gr. er fjallað um rannsókn eða athugun á endurskipulagningu bankanna og þar segir að hluti af því sé mat á hvort stjórnendur og helstu hluthafar hafi gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum.

Hvorki Seðlabanki Íslands né Fjármálaeftirlitið eru þar nefnd til sögu, heldur aðeins að kanna eigi hvort helstu hluthafar eða stjórnendur þar hafi gerst sekir um afglöp í rekstri.

Í 10. gr. er fjallað áfram um endurskoðun á regluumgjörð fjármálastarfsemi í landinu og framkvæmd bankaeftirlits. Þar virðist mér að menn hafi gefið sér fyrir fram niðurstöðu úr athuguninni sem talað er um í 6. lið. Því þar segir, með leyfi forseta:

„Hafi fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í yfirteknu bönkunum gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga þeir ekki að gegna sambærilegu hlutverki næstu þrjú árin.“

Ég átta mig ekki á þessu, herra forseti. Við höfum talað um að setja þurfi á stofn sérstakt saksóknaraembætti og sérstaka sannleiksnefnd á vegum þingsins. En þarna virðist mér ríkisstjórnin ætla að ráða sér ráðgjafa og hafi ráðið fyrrverandi forstöðumann finnska fjármálaeftirlitsins til að skoða það sem illa hefur farið í aðdraganda bankahrunsins.

Herra forseti. Tími minn er nú að verða liðinn, enda fór nokkuð af honum í að bíða eftir hæstv. fjármálaráðherra. Í lokin vil ég víkja að 7. gr. þar sem minnst er á einkavæðingu bankanna sem tekjulind og spyrja hæstv. fjármálaráðherra í fullri góðsemi: Kunna menn annan betri? Bankarnir voru á sínum tíma seldir á um 19 milljarða kr. að núvirði. Við tölum um að við þurfum að standa skil á 1.400 milljörðum króna á næstu árum. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hæstv. ráðherra sem undir þetta ritar ætlar að gera bankana að tekjulind (Forseti hringir.) miðað við þær tölur.