136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara fyrst um 2. og 11. gr., þá hangir þetta allt saman. Atriðin sem tekið er á í plagginu, endurreisn bankanna, peningamálastefnan og ríkisfjármálastefnan hanga saman við hag heimilanna. Það sem skiptir heimilin mestu er að fá stöðugleika í gengið, því það mun slá á verðbólguna. Síðan verðum við að gæta þess að skuldirnar sem við tökum á okkur — hverjar svo sem þær verða þegar öll kurl eru komin til grafar — sligi ekki heimilin til langtíma í vaxtagreiðslum og afborgunum. Eftir því sem við tökum lengri tíma í að greiða þær verða vextirnir meiri. Þannig að þetta hangir allt saman og engu er gleymt.

Ætlunin er að fá erlenda sérfræðinga til að endurskoða bankana og kerfið sem um þá á að fjalla og fram hefur komið í umræðunni að búið er að fá mann til þess.

Annað mál er hvernig farið verður með þá sem hafa brotið lögin og það fer inn í eðlilegt ferli, sem verður sett upp og hefur þegar verið kynnt að hluta til á þingi og utan þess, og við eigum eftir að sjá fara af stað. Ég held að við þurfum ekki að kvíða því að í rannsókninni verði ekki öllum steinum velt við.

Um 7. gr. og einkavæðingu bankanna, hvort ég kunni annan betri. Nei, ég kann ekki annan betri. En ég held að það skynsamlegasta sem við getum gert til að minnka skuldirnar sem ríkið gæti þurft að setja okkur í til að endurreisa bankana sé að koma þeim og rekstri þeirra aftur í hendur (Forseti hringir.) einstaklinga og samtaka þeirra.