136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ljóst er að bankahrunið hefur þegar lent harkalega á heimilum í landinu. Gjaldmiðillinn hefur fallið um 70% það sem af er árinu. Nú bíða menn eftir því hvað gerist þegar krónunni verður fleytt. Hversu mikið gengisfallið verði. Um það var rætt hér í vikunni að verðtrygging á húsnæðislánum gæti kostað 240 milljarða kr. frá 1. júní á þessu ári til 1. júní á næsta ári. Reikningurinn fyrir þessari fjárhæð verður sendur húseigendum í landinu.

Ekki er nóg, hæstv. forseti, fyrir hæstv. ráðherra að vísa til þess að ýmsar aðgerðir séu í undirbúningi. Við hljótum að eiga heimtingu á að fá að vita hvað ríkisstjórnin hyggst leggja til, til að létta byrðum af heimilum og fjölskyldum í landinu. Ekki bara lengja í hengingarólinni eins og tillögurnar sem hér hafa komið fram miða að.

Það þarf að setja fólkið í forgang og það er ekki gert með áætluninni sem hér liggur fyrir og verður ekki gert með aðferðafræðinni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þekktur fyrir. Sú aðferðafræði hefur ekkert breyst í gegnum tíðina og er alveg söm við sig í þessu plaggi.

Það sannast af einu — fyrir utan hækkun stýrivaxta og áframhaldandi hækkun vaxta, sem hefur verið stefnuhald gjaldeyrissjóðsins í gegnum tíðina — kröfunni sem sett er fram um hallalaus fjárlög árið 2012. Ætla sér að taka öll þessi hryllilegu lán og skera svo niður í ríkisútgjöldum strax á tveimur, þremur árum. Það gengur ekki upp, hæstv. ráðherra.