136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[19:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil hæstv. ráðherra á þann veg að taka eigi yfir í nýju bankana eignir úr gömlu bönkunum og á móti jafna upphæð í skuldum og skilja síðan hitt eftir. Ég á eftir að sjá það gerast þannig þegar þessi dæmi eru gerð upp. Ég óttast að nýir bankar með svona mikla skuldabyrði verði ekki mjög söluleg vara — það er boðað hér í plagginu að síðan eigi að koma þeim á markað. (Fjmrh.: Það snýst um eiginfjárframlagið.) Það snýst um það að bankarnir eru þá að sjálfsögðu orðnir mjög skuldsettir. Þessir nýju bankar fá þessar miklu skuldir væntanlega í vöggugjöf, eins og ég skil þetta.

Það þarf þá a.m.k. að gera mjög rækilega grein fyrir því hvernig þetta dæmi lítur út reikningslega á vettvangi þingnefndarinnar sem fær málið til skoðunar.