136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[19:11]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Komið er að lokum umræðunnar. Ég á einungis eina fimm mínútna ræðu eftir. Ég get lýst því yfir hér að ég hef efni í mun lengra mál. Ég ætla að tæpa á örfáum atriðum sem hafa komið upp í hugann í dag.

Umræðan hófst á því að hv. þm. Helgi Hjörvar lýsti því yfir að Seðlabankinn væri rúinn trausti. Í fréttum klukkan sex koma fréttir um það að tveir samfylkingarráðherrar vilji að kosið verði sem allra fyrst, (Gripið fram í.) að endurnýja þurfi umboð ríkisstjórnarinnar. Mér finnst þetta allt svo alvarlegar yfirlýsingar, hæstv. forseti, í ljósi þess sem hér er rætt, því að verið er að tala um stærstu lántöku Íslandssögunnar, fjármuni sem treysta á Seðlabankanum fyrir. Seðlabankanum sem samfylkingarþingmenn og samfylkingarráðherrar virðast telja að sé trausti rúinn.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í andsvari við mig í morgun að Seðlabankinn ákvæði stýrivexti, ég ætti ekki að ráðast á ríkisstjórnina eða ráðherrana og skammast yfir stýrivöxtum, það væri sko Seðlabankans að ákveða þá, Seðlabankans sem er trausti rúinn.

Hæstv. forseti. Hér rekur sig hvað á annars horn. Hér situr handónýt ríkisstjórn sem er trausti rúin. Til marks um það eru fjöldamótmæli fyrir utan þetta hús helgi efti helgi og baráttufundir í húsunum hér í kringum okkur, Iðnó, Nasa og einn í Háskólabíói nk. mánudagskvöld. Það er því ljóst, og það hefur komið mjög berlega fram í þessari umræðu í dag, að ríkisstjórnin er langt því frá að vera þeim vanda vaxin að takast á við hið gríðarlega verkefni sem við blasir. Hún sér bara þá einu leið, sem hún kallar óhjákvæmilega, að taka neyðarlán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með afdráttarlausum skilyrðum um að þrengt skuli að öllum opinberum fjárveitingum á næstu árum, jafnvel áratugum.

Hæstv. forseti. Óhjákvæmilegt eða óhjákvæmilegt ekki að taka þetta lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Þessi sama ríkisstjórn hefur áður sagt að ýmsir hlutir hafi verið óhjákvæmilegir — ég leiðrétti það, það var ekki þessi sama ríkisstjórn. Það var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem sagði á sínum tíma að óhjákvæmilegt væri að einkavæða bankana. Ekki væri hægt að halda þessum tveimur bönkum í ríkiseigu því að það væri svo gamaldags, við værum svo aftarlega á merinni, öll ríkin í kringum okkur væru meira eða minna búin að einkavæða bankana sína, sem var ósatt. Í nágrannalöndum okkar, þar sem bankarnir standa sæmilega, er stór hluti, og jafnvel stærsti hluti, bankanna í ríkiseigu.

Ríkisstjórnin sem við bjuggum við á sínum tíma taldi óhjákvæmilegt að einkavæða bankana. Á sínum tíma var óhjákvæmilegt að byggja Kárahnjúkavirkjun, það átti að bjarga atvinnulífi á Austurlandi. Á sínum tíma var óhjákvæmilegt að lækka skatta á fyrirtækin og á þá tekjuhæstu. Frjálshyggjuumræðan hefur verið með þeim hætti hér í þessum sal á undanförnum árum að viðsnúningur verður að eiga sér stað. Sá viðsnúningur verður greinilega ekki með þessari ríkisstjórn því að Samfylkingin hefur lagst á sveif með Sjálfstæðisflokknum í frjálshyggjuumræðunni. Hún telur nú, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, óhjákvæmilegt að taka þetta lán. Þau hafa ekki reiknað neina aðra sviðsmynd. Það er enginn valkostur í boði. Það er í sjálfu sér skammarlegt þegar horft er á hversu stórt þetta mál er.

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu á að vitna í tölvupóst sem ég fékk í dag frá þriggja barna móður sem telur sig ekki eiga það skilið að þurfa að horfa á eftir lífi sínu upp í skuldir sem aðrir hafa stofnað til. Henni leikur forvitni á að vita hvernig ríkisstjórnin hugsar hlutina fyrir fólk eins og hana, fólk sem er með allt í skilum, fólk sem hefur streðað allt sitt líf til að geta lifað sómasamlegu lífi og hefur veitt börnunum sínum áhyggjulausa æsku. Þetta er fólk sem aldrei hefur séð barnabætur. Iðnaðarmenn eru t.d. það tekjuháir að þeir sjá ekki barnabætur. En þegar iðnaðarmenn missa vinnuna hvað gerist þá? Barnabæturnar skila sér ekki strax, það líður a.m.k. ár þar til eitthvað slíkt kæmi til þessarar fjölskyldu. (Forseti hringir.)

Þetta er fjölskylda sem neitar að kyngja þessu og ég segi: Ég styð þessa fjölskyldu (Forseti hringir.) og allar aðrar fjölskyldur sem eins er komið fyrir. (Forseti hringir.) Þau eiga ekki skilið þetta ástand og ríkisstjórnin verður að bjóða þeim eitthvað annað en hún gerir.