136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

10% niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[10:43]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem ljóst er að hæstv. fjármálaráðherra hefur fyrirskipað 10% niðurskurð á öll ráðuneyti og þar með heilbrigðisráðuneytið. Í beinu framhaldi hefur heilbrigðisráðherra fyrirskipað öllum stofnunum sem heyra undir ráðuneyti hans að senda inn nýjar tillögur um fjárhagsáætlun frá því sem fjárlagafrumvarpið lítur út í dag og liggur fyrir Alþingi.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta sé forgangsröðun verkefna og fyrirheita ríkisstjórnarinnar um niðurskurð varðandi þá fjárlagagerð sem nú liggur fyrir. Á ekki að standa við þau fyrirheit að verja velferðarkerfið? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um verkefni heilbrigðisstofnana. Miklir fjárhagsörðugleikar eru nú þegar hjá mjög mörgum heilbrigðisstofnunum og raunþörf stofnananna hvað varðar fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir núna er miklu meiri en fram kemur í frumvarpinu. Á að skerða þessar stofnanir enn frekar? Það er alveg ljóst að 10% flatur niðurskurður þýðir annaðhvort skerta þjónustu eða að kostnaðinum verður velt yfir á sjúklingana eða yfir á aðrar stofnanir eða sveitarfélögin eða að starfsmenn verða að taka á sig launaskerðingu eða aukið álag.

Ég tel mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra svari því hvort þetta sé forgangsröðunin og hvort hann ætli að standa við þau tilmæli fjármálaráðherra að taka flatan 10% niðurskurð á allar heilbrigðisstofnanir, sama hvaða þjónustu þær veita.