136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

10% niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[10:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit og þjóðin öll hafa orðið miklar breytingar og aðstæður í íslensku þjóðlífi eru aðrar nú en þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Hv. þingmaður veit einnig að nú er unnið á ný að fjárlögum og fjárlagafrumvarpið, eins og það liggur fyrir þinginu núna, mun taka breytingum, sú vinna er í gangi. Það er alveg ljóst að ekki er um að ræða neinn flatan niðurskurð í mínu ráðuneyti, það hefur aldrei staðið til. Ríkisstjórnin mun gera allt sem hún getur til þess að verja velferðarkerfi okkar og halda uppi þjónustustigi, sérstaklega í heilbrigðismálum.

Hins vegar liggja mörg verkefni fyrir, jafnvel þrátt fyrir að við hefðum ekki séð þær breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem raun ber vitni að munu koma til. Það er alveg ljóst að hvort heldur sem er þá hafa menn verið að líta til skipulagsbreytinga og ýmissa aðgerða sem miða að því að fá eins mikla þjónustu og mögulegt er fyrir þá fjármuni sem við leggjum í þetta.

Hv. þingmaður nefndi rekstrarvanda heilbrigðisstofnana. Sem betur fer höfum við nú náð góðum árangri síðustu árin, sérstaklega varðandi Landspítalann. Alveg gríðarlega góðum árangri. Á sama tíma í fyrra var hallinn 5,5% en er núna mínus 0,6% ef við tökum tillit til gengisáhrifa, sem verður eðli málsins samkvæmt að gera. Og þar sem sú stofnun veltir samkvæmt fjárlagafrumvarpinu kannski 37 milljörðum þá er þar um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða.

Við höfum verið að líta til annarra landa, sérstaklega til Norðurlandanna til að sjá hvernig menn gera hlutina þar og til að læra af því. Því þetta er verkefni, ekki bara Íslendinga heldur allra þeirra þjóða sem við berum okkur saman við, þ.e. að fá eins mikla þjónustu og mögulegt er fyrir það fjármagn sem við leggjum til. En svo sannarlega er það forgangsmál að vernda velferðarkerfið.