136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

framhaldsskóli í Grindavík.

[10:49]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. heilbrigðisráðherra um mikilvægi þess að vernda velferðarkerfið, það er eitt af því sem við þurfum að standa dyggan vörð um. Á sama hátt vil ég lýsa því yfir að við viljum líka standa dyggan vörð um menntakerfið. Þessa þætti þurfum við að leggja ríka áherslu á núna og á þeim tímum sem fram undan eru.

Mig langaði að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra varðandi þann möguleika að stofna menntaskóla í Grindavík. Bæjarstjórn Grindavíkur hefur lagt mikla vinnu í að undirbúa stofnun slíks skóla og hefur lagt á það ríka áherslu að koma að stofnun hans. Bæjarstjórnin gerir sér ljóst hver staðan í ríkisfjármálunum er og það liggur fyrir að hún er tilbúin til að leggja mikið á sig til þess að af stofnun slíks skóla geti orðið. Í því samhengi hefur m.a. verið horft til Borgarness og víðar.

Bæjarstjórnin hefur einnig lagt upp með að þarna geti orðið framhaldsskólabrautir og þriggja ára nám til stúdentsprófs, hraðbraut. Þeir leggja áherslu á fleiri þætti, t.d. að þarna geti orðið menningarmiðstöð bæjarins. Hugmyndir bæjarstjórnar eru fyrst og fremst að sameina þessa þætti og byggja upp öfluga stofnun fyrir bæinn og vissulega skiptir miklu máli að nemendur í Grindavík geti sótt nám heima og mikilvægt að samfélagið geti tekið utan um fjölskyldur á þeim tímum sem nú eru.

Það liggur líka fyrir að í dag greiðir ríkið töluvert með nemendum frá bæjarfélögum líkt og Grindavík og miðað við það fæ ég ekki séð að um mikil (Forseti hringir.) viðbótarútgjöld yrði að ræða. Mig langar því að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um stöðu þessa máls sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir.