136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

framhaldsskóli í Grindavík.

[10:54]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afar mikilvægt að nemendur á framhaldsskólastigi geti sótt nám í heimabyggð sinni, það skiptir mjög miklu máli því Grindvíkingum þykir, líkt og öðrum, talsvert að ferðast til og frá skóla hálftíma eða 40 mínútur á hverjum degi. Það skiptir miklu máli að hægt sé að byggja upp slíka stofnun.

Grindavík er að nálgast að verða 3.000 manna bær og ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að færa menntunina nær fólkinu. Mér fannst á svari hennar áðan að þótt ýmislegt væri í deiglunni þá væri þetta eitt af því sem væri til skoðunar og ég vil lýsa því yfir að ég vil fá að vinna það áfram með henni.