136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

framhaldsskóli í Grindavík.

[10:55]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt að við skoðum þessi mál áfram. En við verðum líka að hafa það í huga þegar við viljum færa menntunina nær fólkinu hvernig menntun við ætlum að bjóða upp á, hvernig skóla. Það ánægjulega hefur gerst í þeirri þróun sem við höfum upplifað á undanförnum missirum að við sjáum nú skóla með mismunandi brag, með mismunandi stefnu, þar má t.d. nefna annars vegar nýstofnaðan menntaskóla í Borgarnesi og hins vegar skólann á norðanverðu Snæfellsnesi sem er með öðrum hætti, þar sem er verið að reyna að nýta dreifmenntunina og nýta þá tækni sem fyrir er og þá verða áherslurnar aðrar. Ég held að það skipti miklu máli að við lítum til fjölbreytni þegar við erum að færa námið nær fólki.

Ég vil líka geta um fleiri staði þar sem við erum að reyna að huga að því hvernig hægt er að færa námið nær fólkinu. Til dæmis hef ég verið í ágætu samstarfi við Rangárþing eystra varðandi það að koma hugsanlega upp framhaldsdeild á Hellu, ef til vill í samvinnu við Fjölbrautaskóla (Forseti hringir.) Suðurlands annars vegar og líka Fjölbrautaskóla Vestmannaeyja þegar Bakkafjöruhöfn verður komin.