136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

4. fsp.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Auðmönnum er ekki ætlað neitt sérstakt hlutverk í heilbrigðisþjónustu landsmanna annað en það að þeir mega væntanlega fá þjónustu eins og aðrir landsmenn. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður talar um það sem útúrsnúning þegar ég reyni að útskýra hvernig fjárframlög eru til heilbrigðisstofnana. Er hv. þingmaður að segja að það módel sem farið er eftir núna og sem ekki verður breytt sé meingallað? Er hv. þingmaður að segja það? Það er ekki gagnrýni á þann sem hér stendur, það er væntanlega gagnrýni á þann sem byggði upp það kerfi og það er svo sannarlega ekki ég heldur flokkssystir hv. þingmanns, svo að því sé algerlega til haga haldið.

Hins vegar er það svo að ég get ekki svarað fyrir allar heimsóknir í heilbrigðisstofnanir, þær eru margar. En sem betur fer hafa mjög margir aðilar, innlendir og erlendir, veitt því eftirtekt að það eru gríðarlega mikil gæði í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Eins og margir hafa kannski séð í fréttum huga menn jafnvel að innflutningi sjúklinga (Forseti hringir.) til landsins og er það vel.