136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í kjölfar neyðarlaganna var skilið á milli starfsemi hinna gömlu banka og starfsemi þeirra nýju banka sem ríkið setti á fót á rústum hinna gömlu. Mikilvægt var að tryggja faglega yfirstjórn hinna gömlu banka og það var gert strax í upphafi. Er nú unnið af krafti við að bjarga verðmætum til að tjón almennings og almennra kröfuhafa verði sem minnst.

Jafnframt var lagður grunnur að endurreisn nýju bankanna og má segja að upphafsverkinu þar hafi lokið með kjöri í bankaráð bankanna nú nýverið. Þar með voru skipaðir til verka trúnaðarmenn sem ætlað er að stjórna þessum bönkum.

Þess hefur nokkuð gætt í opinberri umræðu og reyndar einnig í umræðunni áðan að gerðar eru að umtalsefni lánveitingar til einstakra manna eða að í stjórnendateymi hinna nýju banka eru margir sem áður sátu í stjórnunarteymi hinna gömlu banka. Það er eðlilegt að umræða vakni um það enda beinist reiði almennings auðvitað að þeim sem voru áberandi í atvinnulífinu og efnahagslífinu fyrir hrunið, jafnt stórra og umsvifamikilla athafnamanna og þeirra sem voru í stjórnunarhlutverki í bönkum.

Það er líka mikilvægt að við gætum okkar við þessar aðstæður. Það er mjög mikilvægt að sú staðreynd að bankarnir eru í ríkiseigu valdi því ekki að við sem stjórnmálamenn hlutumst til um innri málefni banka hvort sem er um útlánaákvarðanir þeirra eða um ákvarðanir um ráðningu stjórnenda. Við verðum einfaldlega að treysta þeim stjórnendum, æðstu stjórnendum bankanna, til að ráða fram úr þessum málum. Það er engin eftirspurn eftir því í samfélaginu að auka pólitísk afskipti af lánveitingum eða pólitískum mannaráðningum í bönkum. Það má ekki mistúlka reiði almennings með því að snúa dæminu algerlega við, auka á pólitíska íhlutun um innri málefni banka og færa þar með klukkuna marga áratugi aftur í tímann.