136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:30]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að hefja þessa umræðu því að hún er mjög þörf. Það er margt óljóst varðandi uppskiptingu gömlu og nýju bankanna og t.d. hvernig á að taka á skuldum atvinnufyrirtækjanna í landinu. Maður spyr sig margra spurninga: Af hverju erum við með þrjá banka? Var ekki tækifæri til að sameina eitthvað af þessum bönkum? Er rökrétt að búa til þrjár yfirstjórnir banka? Hefði ekki mátt spara með yfirstjórninni? Mat mitt er að eigið fé bankanna verði of lítið, sérstaklega með tilliti til þeirra afskrifta sem væntanlega verða í mjög miklum mæli varðandi fyrirtæki og einstaklinga. Síðan er aftur spurningin um hvort einkavæða eigi bankana aftur. Það verður gert á einhverjum tímapunkti, kannski ekki alveg á næstunni en væntanlega mjög fljótlega.

Svo eru það launamál bankastjóra og bankamanna. Það eru enn þá ofurlaun í bankakerfinu sem á ekki að líðast við þessar aðstæður. Sama fólkið er í bönkunum í dag og kom okkur í þrot að undanskildum æðstu strumpunum, þ.e. bankastjórunum og bankaráðsmönnunum. Að öðru leyti er það að stærstum hluta sama fólkið. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt að minnast á (Forseti hringir.) að ekki er enn þá búið að taka húsnæðislánin, (Forseti hringir.) sem eru (Forseti hringir.) bæði í bönkum og sparisjóðum, yfir til Íbúðalánasjóðs.