136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

28. mál
[11:54]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem flutt er árlega vegna þess að ákveða þarf þessi gjöld og gjaldskrár með lögum á hverju ári og þau gilda til árs í senn.

Þetta er fyrst og fremst kostnaður sem eftirlitsskyldir aðilar þurfa að greiða af álagningarstofni sínum, þ.e. í hlutföllum eftir stærð. Þarna eru nefndir t.d. viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki sem skulu greiða 0,00603% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600 þús. Sama er síðan um vátryggingafélög sem skulu greiða 0,408% af bókfærðum iðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 600 þús.

Maður veltir fyrir sér hversu raunhæft þetta frumvarp er hjá hæstv. ráðherra, því að þarna er viðmiðunarstofninn eignir viðkomandi fjármálafyrirtækja. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hverjar er áætlað að eignir þessara viðskiptabanka og lánafyrirtækja séu sem hafa verið álagningarstofn fyrir gjald sem á þau eru lögð og hefur síðan verið til þess að greiða rekstur eftirlitsstofnana eins og Fjármálaeftirlitsins? Hvaða breytingar sjá menn á milli ára hvað þetta varðar? Hvernig verður með álagningu á eignir þessara banka? Hvernig verður með álagningu á eignir gömlu bankanna svokölluðu sem eiga að starfa áfram í tvö ár og halda sínum bankaleyfum, halda sínum leyfum til fjármálarekstrar og gjaldstofninn er miðaður við eignir þeirra? Mér er spurn: Í fyrsta lagi hvernig verður sú eignastaða tekin og hvað er verið tala um í upphæðum miðað við það sem áður hefur verið? Mér finnst frumvarpið hvað þetta varðar vera býsna mikið í vindinum og vil heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig þetta er skilgreint miðað við núverandi aðstæður, annars vegar hjá starfandi fjármálafyrirtækjum eins og nýju bönkunum svokölluðu og hins vegar hjá gömlu bönkunum eða öðrum lánafyrirtækjum sem eru að stórum hluta kannski komin í þrot.

Áfram er tíundað í frumvarpinu hverjir gjaldstofnarnir eru, þar er talað um verðbréfafyrirtæki sem skulu borga 0,064% af eignum sínum. Verðbréfamiðlanir skulu einnig greiða 0,064% af eignum, þó aldrei lægri fjárhæð en 350 þús. Þarna er líka minnst á rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og þá veltir maður fyrir sér: Hver er staða fjárfestingarsjóðanna og peningamarkaðssjóðanna líka sem voru inni í bönkunum? Eru þeir til enn þá? Eru þeir enn þá gjaldstofn þessir sjóðir sem hafa verið svo mjög til umtals undanfarið? Er búið að leggja þá niður? Eða eru þeir áfram gjaldstofn fyrir þetta gjald?

Maður veltir líka fyrir sér Kauphöllinni. Hér er sagt að skipulegir verðbréfamarkaðir og markaðstorg fjármálagerninga skuli greiða 0,61% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 350 þús. kr. Hvað hefur Kauphöllin greitt á undanförnum nýliðnum árum og hverju hefur hún skilað í tekjum til eftirlitsstofnananna í gegnum þennan gjaldstofn? Hvað eru líkur til að hún muni skila á næsta ári eða á gildistíma þeirra laga sem hér er verið að setja?

Mér sýnast þessi lög vera meira og minna í einhverjum allt öðrum raunveruleika en við nú stöndum frammi fyrir og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið endurskoðað.

Þarna er líka talað um lífeyrissjóðina. Við skulum vona að lífeyrissjóðirnir eigi áfram eignir og góðar en ljóst er að eignir þeirra hafa líka skroppið saman.

Íbúðalánasjóður skal greiða 0,0028%. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir skulu líka greiða. Allir þessir sjóðir eiga að greiða ákveðinn hluta annaðhvort af eignum sínum eða umsvifum í eftirlitssjóð fyrir eftirlitsstofnanirnar og mér sýnist að þessi gjaldstofn sé í sjálfu sér meira og minna hruninn.

Hæstv. ráðherra gat þess áðan að umsvifin hefðu verið svo mikil að þetta hefði skilað liðlega 50% meiri tekjum til eftirlitsstofnananna, sérstaklega til Fjármálaeftirlitsins sem fær meginhluta af þessum eftirlitsgjöldum, á síðastliðnu ári. Ég veit ekki hvað má gera ráð fyrir að þessar tekjur lækki mikið núna en mér finnst það samt ábyrgðarhluti að leggja fram frumvarp í þessa veru án þess að greint sé frá því hver staðan er. Ég vil gjarnan að ráðherra geri ítarlega grein fyrir því hver staða þessara gjaldstofna er sem hér eru hafðir til grundvallar.

Ráðherra minntist líka á að til stæði að endurskoða stöðu Fjármálaeftirlitsins. Við höfum heyrt í fréttum nýverið þar sem stjórnmálaleiðtogar, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, forustumenn í Seðlabankanum og í Fjármálaeftirlitinu hafa verið að vegast á um hverjum sé að kenna hið gríðarlega bankahrun og sú staða sem nú er uppi í íslensku samfélagi að taka verður hundruð ef ekki þúsund milljarða kr. lán til að dekka þær hamfarir sem þar hafa orðið og skuldbinda íslenskan almenning vegna þess. Og engum er það reyndar að kenna.

Við höfum heyrt Seðlabankann lýsa því yfir að það sé ekki honum að kenna heldur er vísað á Fjármálaeftirlitið. Hæstv. ráðherra reyndi að halda mikla varnarræðu fyrir Fjármálaeftirlitið og segir að það sé ekki því að kenna. Við heyrðum að stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins sagði að þetta væri bönkunum að kenna. Er þetta gríðarlega hrun og þessi hryllilega staða og þær skuldbindingar sem núna er verið að setja á íslenskan almenning þá bara almenningi að kenna? Því það er almenningur einn sem á að borga brúsann, íslenskur almenningur á borga brúsann. Það hefur ekkert mistekist neins staðar, ekkert hjá Fjármálaeftirlitinu.

Reyndar var ég svolítið hugsi þegar ég hlustaði á stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins sem jafnframt er varaformaður stjórnar Seðlabankans, þegar hann annars vegar kenndi Seðlabankanum um og varpaði ábyrgðinni af sér. Maður áttaði sig ekki á því í viðtalinu í hvers nafni viðkomandi var að tala, hvort hann var að tala í nafni varaformanns stjórnar Seðlabankans eða stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins. Alla vega fannst mér það sem hann sagði ekki mjög trúverðugt og ekki hægt að átta sig á í hvers nafni hann talaði. Ég get því ekki tekið undir það hjá hæstv. ráðherra að Fjármálaeftirlitið sé hafið yfir gagnrýni og rannsókn hvað varðar aðkomu þess og hlutverk að eftirliti með fjármálastofnunum eins og það hefur verið. Bara umræðan um Icesave-reikningana í Bretlandi og Hollandi sem fullyrt er að Fjármálaeftirlitið, ef það hefði staðið sig í stykkinu, hefði getað komið í veg fyrir að færu með þessum hætti. Ef búið hefði verið að skylda bankana til að að setja þá í eigin dótturfyrirtæki og ekki tengd íslenskum almenningi, og að leyfa þeim líka að fara fram með þeim hætti sem þarna var og af þeirri stærðargráðu ef ljóst var að íslenskur almenningur var ábyrgur. Ef Fjármálaeftirlitið hefur ekki haft hlutverk í þessu efni, þá skil ég ekki til hvers það er.

Þá veltir maður líka fyrir sér, frú forseti: Er ekki ástæða til, áður en við samþykkjum þetta frumvarp, að hlutverk Fjármálaeftirlitsins verði þá endurskoðað rækilega frá grunni? Hvert verður hlutverk þess nú þegar stór hluti af fjármálafyrirtækjunum er annaðhvort lagstur á hliðina eða kominn undir ríkið? Mér fyndist mjög fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvert eigi að vera hlutverk Fjármálaeftirlitsins á næstu mánuðum og missirum við þær aðstæður sem nú eru og hvert sé hlutverk þess nú. Það er mjög erfitt að átta sig á því á hvers ábyrgð skilanefndir bankanna vinna og hvað áætlað er að þær kosti og hvaðan á að taka þann kostnað. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað gera menn ráð fyrir að vinnan við skilanefndir og annað sem lýtur að yfirtöku á bönkunum kosti og hver borgar? Hvað er ætlast til að þessar skilanefndir starfi lengi og á hvers ábyrgð? Og hver verður ábyrgð Fjármálaeftirlitsins nú þegar gömlu bankarnir eru komnir í sérstaka meðferð samkvæmt lögum sem voru samþykkt fyrir nokkrum dögum og menn deila um hvort séu lögmæt og hvort þau standist bæði stjórnarskrá og alþjóðalög? Þá veltir maður fyrir sér: Á Fjármálaeftirlitið eða einhverjar eftirlitsstofnanir að hafa þar hlutverk og hver á að bera þann kostnað sem því fylgir? Það er svo gríðarlega margt óljóst í þessu máli öllu um Fjármálaeftirlitið að mér finnst nánast útilokað að ætla að samþykkja frumvarp sem kveður á um gjaldtöku á gjaldstofna sem margir hverjir eru reyndar ekki lengur til eða orðnir með þeim hætti að þeir skila ekki miklum tekjum og því finnst mér frumvarpið vera komið út í býsna mikinn óraunveruleika.

Af því að hæstv. ráðherra vék að stöðu Fjármálaeftirlitsins sem hann hrósaði í bak og fyrir, þá er reynsla mín og kynni af Fjármálaeftirlitinu þau að það hafi um margt verið óþarft og hafi ekki skilað því verki sem því var ætlað. Ég minnist þess í samskiptum við sparisjóðina þegar einstakir stofnfjárhafar, bændur sem áttu hlut í sínum sparisjóði og vildu standa vörð um hann og á þá var gerð árás að þá virtist Fjármálaeftirlitið standa með fjárplógsmönnunum gegn almenningi sem vildi standa vörð um sparisjóðina og þegar menn vildu leita réttar síns og báðu um aðstoð Fjármálaeftirlitsins þá vísaði það einfaldlega á dómstóla. Ef vinnubrögð Fjármálaeftirlitsins í öðrum verkum hafa verið með þessum hætti held ég að ástæða sé til að gera sérstaka rannsókn á starfsemi þess og hvernig það hefur staðið sig. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort (Forseti hringir.) rannsókn sé komin í gang eða hvenær rannsókn fari í gang á aðkomu Fjármálaeftirlitsins að bankahruninu og þeirri stöðu (Forseti hringir.) sem upp er komin í íslensku efnahagslífi.