136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

verðbréfaviðskipti.

53. mál
[12:47]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta ákvæði er sérstaklega hugsað sem neytendavernd og minnihlutavernd og er baráttumál þeirra sem vinna að hagsmunum smærri fjárfesta og hluthafa. Þeir hafa talað mjög fyrir þessu sjónarmiði og börðust fyrir því að það yrði sett í lög. Þetta er umdeilt ákvæði á milli minni hluta og meiri hluta.

Þarna er um að ræða yfirtökuskyldu sem felst ekki í því að lítill hluthafi sé skyldugur til þess að selja heldur er sá stóri skyldugur til að gera honum tilboð sem er í flestum tilfellum á yfirverði. Verið er að tryggja að slíkar hræringar verði til þess að minni hluthafinn fái eins gott tilboð og hugsast getur í sinn hlut. Svo ræður hann því sjálfur hvort hann selur.

Hér er því um að ræða mikla neytendavernd, minnihlutavernd, og eins og ég nefndi áðan hafa neytendasamtök og samtök smærri fjárfesta víða um lönd fjallað um þetta. Í aðdraganda þessa frumvarps hefur verið rætt hvort setja eigi þetta ákvæði í lög. Það er umdeilt eins og annars staðar þar sem miklir hagsmunir eru undir. En ég fagnaði því mjög að sjónarmið minni hlutans, eða sem sagt minnihlutaeigendanna og smærri hluthafa, urðu ofan á þarna og þess vegna er frumvarp þetta komið hingað inn.