136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn.

139. mál
[13:38]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna frumvarps til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem er að finna á þskj. 154, 139. mál þessa þings. Þar er verið að setja nýja löggjöf um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, styrkja stöðu þess og taka tillit til þeirra breytinga sem upplýsingatæknin í rauninni og fjölgun skóla á háskólastigi hefur haft í för með sér og þurfa að hafa á starfshætti og notkun safnsins.

Ég geri ekki athugasemdir við þá þætti sem hæstv. ráðherra rakti í framsögu sinni en ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðherra kæmi að 8. gr. frumvarpsins. Í henni er gert ráð fyrir því að safninu verði heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu sína og þar er átt við útlánastarfsemi, millisafnalán, fjölföldun, gerð ljósmynda o.fl. og enn fremur að landsbókavörður muni setja gjaldskrá um gjaldtöku á þjónustu safnsins.

Ég tel, herra forseti, að hér sé um mjög alvarlega tímaskekkju að ræða ef það er innlegg hæstv. menntamálaráðherra að leggja með þessum hætti aukna gjaldtöku á stúdenta og nám á háskólastigi. Ekki hefur verið rukkað fyrir útlán á námsgögnum hingað til, kennarar hafa getað vísað á safnið og stúdentar nýtt sér það sér að kostnaðarlausu.

Við skulum athuga hverjir nota háskólabókasafnið mest, Landsbókasafn — Háskólabókasafn. Það eru einmitt stúdentar og kennarar við háskólann þannig að hér gæti verið um töluverð útgjöld að ræða þegar til heildarinnar er litið.

Þegar maður lítur svo á fylgiskjal með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis er afskaplega lítið á því að græða, rétt eins og greinargerðinni sjálfri, það er ekkert á greinargerðinni að græða.

Um 8. gr. segir þar, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er fjallað um gjaldtökuheimildir safnsins. Þarfnast það ekki nánari skýringar.“

Í umsögn um þetta frumvarp frá fjárlagaskrifstofunni segir að þar sem ekki liggi fyrir hvernig þessar gjaldtökuheimildir verði nýttar sé ekki unnt að áætla fjárhæðir í því sambandi.

Ég tel að áður en hv. Alþingi samþykkir að leggja stúdentaskatt á notkun bóka og annarra námsgagna á Landsbókasafni — Háskólabókasafni þurfi að liggja fyrir til hvers þetta ákvæði sé sett í lög. Hvað er það há fjárhæð sem á að leggja á þá sem safnið nota?

Erindi mitt í þennan stól er að gera athugasemdir við þetta, benda á að samkvæmt því sem komið hefur fram í fjölmiðlum hefur ekki komið inn á borð stúdentaráðs eða annars staðar í stjórnsýslu háskólans að það eigi að leggja þetta gjald á. Ég hlýt að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að ekki skuli haft betra samráð við háskólann og stúdenta áður en menn koma með, eins og hæstv. ráðherra gerir hér, tillögur um aukna gjaldtöku af þessu tagi. Ég endurtek, herra forseti, mér finnst þetta alvarleg tímaskekkja nú á tímum þegar þrengir að. Við erum að reyna að hvetja til þess að menn stundi frekar nám þegar minna verður um atvinnu í samfélaginu og þá er ekki rétti tíminn til þess, hæstv. ráðherra, að gera tillögur um auknar álögur á stúdenta eða kennslu.