136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn.

139. mál
[13:43]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að fara varlega í túlkun sína á þessu, að segja að þetta séu beinar álögur á stúdenta. Þetta er heimildarákvæði fyrir safnið sem það þarf að hafa ef upp koma aðstæður sem stjórn safnsins telur að þurfi að beita. Þessu er ekki beint gegn stúdentum, heldur er þetta einfaldlega mikilvægt ákvæði til þess að safnið nái að þróa sig áfram. Það er mikilvægt að þessi heimild sé til staðar. Með þessu er ekki verið að segja að auknar álögur verði lagðar á stúdenta, það er fjarri lagi. Ég tel hins vegar mikilvægt að hafa heimildarákvæði sem þetta til að geta komið til móts við líka ófyrirséð útgjöld sem hugsanlega verða á næstunni.