136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn.

139. mál
[13:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hæstv. ráðherra um að það sé óþarfi að sá fræjum tortryggni vil ég leyfa mér að vísa til vefmiðilsins dv.is. Miðvikudaginn 12. nóvember birtist þar um klukkan 18:00 viðtal við Björgu Magnúsdóttur, formann stúdentaráðs Háskóla Íslands, um þetta atriði, um þetta lagafrumvarp, þar sem hún segir og ég les, með leyfi forseta, viðtalið:

„„Ég geri athugasemd við að þetta hafi aldrei komið inn á borð til stúdentaráðs eða neins staðar í stjórnsýslu skólans. Það er undarlegt að lesa um þetta í fjölmiðlum þar sem þetta snertir stúdenta við háskólann mjög mikið,“ segir Björg Magnúsdóttir, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands, um nýtt lagafrumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, sem mun veita Landsbókasafninu heimild til þess að innheimta gjöld fyrir útlánastarfsemi.“

Það er alveg ljóst, herra forseti, að stúdentar við Háskóla Íslands vita nákvæmlega hvað hér er á ferð. Formaður stúdentaráðs bendir einnig á í þessu viðtali að Bologna-ferlið kveður á um að stúdentar skuli hafðir með í ráðum þegar málefni háskólans eru rædd og að gengið hafi verið á svig við það í þessu frumvarpi.

Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að það er mjög nauðsynlegt að menntamálanefnd fari allítarlega ofan í þetta heimildarákvæði. Ég trúi því og treysti að þangað verði fulltrúum stúdenta boðið til þess að tjá sig, annars vegar um notkun þeirra á safninu og safngripum og hins vegar um þeirra hugmyndir um fyrirhugaða gjaldtöku.