136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[13:49]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi því sem hér er til umræðu er lagt til að stofnað verði embætti sérstaks saksóknara sem annist rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við hinar sérstöku og mjög óvenjulegu aðstæður á fjármálamarkaði sem upp hafa komið og eftir atvikum fylgi rannsókninni eftir með útgáfu ákæru og saksókn.

Gert er ráð fyrir að hið sérstaka rannsóknar- og saksóknaraembætti verði ekki varanlegt heldur starfi tímabundið og við niðurlagningu þess hverfi verkefni embættisins til annarra saksóknara- og lögregluembætta í samræmi við almenn ákvæði lögreglulaga og laga um meðferð sakamála.

Embætti saksóknarans er viðbót við stofnanir ákæruvaldsins og mun því ekki hrófla við verkaskiptingu milli ákæruvalds og lögreglu annars vegar og annarra eftirlitsstofnana hins vegar, svo sem Fjármálaeftirlits og skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að þessu verður vikið nánar síðar.

Virðulegi forseti. Ég fékk tækifæri til að kynna frumvarpið og efni þess fyrir allsherjarnefnd á opnum fundi nefndarinnar þriðjudaginn 11. nóvember síðastliðinn. Urðu þar gagnlegar umræður um efnisþætti málsins.

Eitt af þeim atriðum sem rætt var um voru valdheimildir hins sérstaka saksóknara og hvaða hlutverk hann hefði þegar kæmi að því að rannsaka hrun bankanna. Í því sambandi skal undirstrikað að saksóknarinn er eins og áður segir viðbót við stofnanir ákæruvaldsins. Embættið er sett á fót til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi við þær sérstöku og óvenjulegu aðstæður á fjármálamarkaði sem komu upp við fall bankanna þriggja.

Með bréfi ríkissaksóknara til mín, dagsett 6. nóvember sl., kom fram að hann teldi nauðsynlegt að fengnir yrðu erlendir aðilar, svokallaðir „forensic auditors“, til þess að sinna nákvæmri úttekt á starfsemi bankanna í tengslum við þá atburði sem leiddu til hruns þeirra. Þessari skoðun deili ég með ríkissaksóknara og tel afar brýnt að slíkir óháðir aðilar verði kallaðir til og rannsaki aðdraganda og ástæður fyrir hruni íslenska fjármálakerfisins. Slík rannsókn kann þó eflaust að hafa í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð sem gæti hlaupið á hundruðum milljóna.

Virðulegi forseti. Rannsóknar- og ákæruheimildir embættisins taka meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota, þar með talið brota sem rannsökuð eru af Fjármálaeftirlitinu og kærð eru til lögreglu, eins og fram kemur í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Eins og þingmönnum er kunnugt er það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að rannsaka brot á lögum á sviði fjármálamarkaðar sem undir það heyra. Ef um er að ræða brot á lögunum ákveður Fjármálaeftirlitið hvort það afgreiðir það með stjórnsýslusekt eða sátt. Ef um alvarlegt brot á lögunum er að ræða, sem varðar refsingu kærir Fjármálaeftirlitið það til lögreglu til opinberrar rannsóknar. Mál sem eru hjá Fjármálaeftirlitinu fara þannig einungis til lögreglu að undangenginni kæru. Er þessi málsmeðferð niðurstaða af vinnu nefndar sem forsætisráðherra skipaði fyrir nokkrum árum til að ræða viðurlög við efnahagsbrotum.

Þessi verkaskipting milli Fjármálaeftirlits og lögreglu hefur bæði kosti og galla. Víst er að málsmeðferð fyrir stjórnsýslueftirlitsaðila getur verið skilvirkari og kostnaðarminni en fyrir refsivörsluaðila. Hins vegar tel ég að menn verði að gæta þess að aðgangur almennings sé jafnopinn að þessum stjórnsýslumálum eins og í refsimálunum. Ég tel ekki ásættanlegt að þau mál sem upp koma vegna bankakreppunnar og Fjármálaeftirlitið rannsakar og lýkur innan sinna vébanda séu sveipuð leyndarhjúp. Þau mál verða að vera á borðinu rétt eins og refsimál, verði um þau að ræða. Almenningur á kröfu á að vita ef lög voru brotin í aðdraganda hrunsins eða í kjölfar þess. Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafnmikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú.

Annað atriði sem ég vildi nefna er varðar rannsóknar- og ákæruheimildir hins nýja embættis er um hversu víðtækt valdsviðið er. Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram að hið nýja embætti skuli sett á stofn til að rannsaka grun um háttsemi sem átti sér stað í aðdraganda og tengslum við þá atburði er leiddu til setningar hinna svokölluðu neyðarlaga. Hér er vitaskuld átt við alla þá háttsemi sem tengst gæti hruni bankanna þriggja, hvort sem hún átti sér stað í aðdraganda þess, á meðan eða í kjölfarið og hvort sem hún tengist bönkunum beint eða starfsháttum lífeyrissjóða, annarra lögaðila eða einstaklinga. Valdheimildir embættisins eru sem sagt bundnar við þessa atburði alla og gætu náð til alls er þeim tengdust svo lengi sem um er að ræða efnahags-, auðgunar- eða skattabrot eða skyld brot.

Hvað varðar rannsókn og saksókn á grun um refsiverða háttsemi í tengslum við brot í opinberu starfi er ekki gert ráð fyrir að hinn sérstaki saksóknari hafi það hlutverk með höndum. Vissulega getur ríkissaksóknari, á grundvelli heimilda sinna í 5. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála og 3. mgr. 21. gr. laga um meðferð sakamála, falið hinum sérstaka saksóknara rannsókn og eftir atvikum útgáfu ákæru og saksókn vegna sakarefna sem tengjast framangreindu hlutverki embættis hans, eins og beinlínis er gert ráð fyrir í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þessu ákvæði er þó ekki ætlað að taka til atvika er tengjast broti í opinberu starfi og munu því þau brot fara í hefðbundinn farveg hjá ákæruvaldi og lögreglu, ef svo má að orði komast.

Þá er í frumvarpinu lagt til að ríkissaksóknara verði heimilt, að tillögu hins sérstaka saksóknara, að falla frá saksókn á hendur þeim starfsmanni eða stjórnarmanni fyrirtækis sem hefur frumkvæði að því að láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar vegna brota sem tengjast fyrirtækinu og tengdum fyrirtækjum, svo og æðstu stjórnendum þeirra, ef talið er líklegt að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á brotum sem falla undir rannsóknar- og ákæruvald sérstaks saksóknara samkvæmt lögum þessum eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Er hér um að ræða það sem nefnt er á ensku „whistleblower“. Það skal tekið sérstaklega fram að gert er ráð fyrir ströngum skilyrðum fyrir beitingu þessarar heimildar. Nánar tiltekið að rökstuddur grunur liggi fyrir um að gögnin eða upplýsingarnar tengist alvarlegum brotum, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra reynist torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir brotunum.

Ákvæðið á sér nokkra fyrirmynd í 3. mgr. 42. gr. samkeppnislaga sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að láta vera að kæra til lögreglu refsiverða háttsemi manna sem að eigin frumkvæði hafa látið í té upplýsingar eða gögn að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Almennar heimildir til að fella niður saksókn er nú að finna í 113. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 146. gr. sakamálalaga. Í f-lið 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991 og d-lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 er að finna heimildir til að fella niður mál ef sérstaklega stendur á og almannahagsmunir krefjast ekki málshöfðunar.

Þá er rétt að geta þess að í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er að finna ákvæði er hafa áhrif á ákvörðun refsingar í sakamáli. Annars vegar er um að ræða 9. tölulið 1. mgr. 70. gr. þar sem kveðið er á um að við refsiákvörðun skuli litið til þess hvort viðkomandi hafi upplýst um aðild annarra að broti. Hins vegar má nefna 9. tölulið 1. mgr. 74. gr. þar sem heimilt er að lækka refsingu ef viðkomandi segir af sjálfsdáðum til brots síns og skýrir hreinskilnislega frá öllum atvikum að því.

Að baki því ákvæði sem hér er lagt til að verði tekið í lög býr það sjónarmið að brýnir almannahagsmunir geti krafist þess að ákveðið verði að falla frá saksókn í slíkum tilvikum í þeim tilgangi að unnt verði að afla sönnunargagna um alvarleg efnahagsbrot sem nánast útilokað væri að færa sönnur á með öðru móti.

Við samningu þessa frumvarps var rætt um þann möguleika að hafa þessa heimild almenna en frá því var hins vegar horfið og ákveðið að einskorða hana við þetta frumvarp. Þessa heimild mætti þó á síðari stigum taka upp í lög um meðferð sakamála ef vel tekst til með beitingu hennar.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir höfuðatriðum í þessu frumvarpi. Það hefur nú verið tilbúið til flutnings frá því í síðustu viku og verið rækilega kynnt fyrir hv. allsherjarnefnd á góðum fundi okkar hinn 11. nóvember eins og ég lét getið. Ég vænti þess að nefndin hraði meðferð málsins eins og kostur er því að ég tel mjög brýnt að þetta frumvarp verði að lögum sem fyrst svo unnt sé að hefja starfsemi þessa embættis sérstaks saksóknara sem hér er lagt til að verði stofnað.

Með þessum orðum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.