136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:15]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að málið sem við ræðum hér sé almennt frekar jákvætt vegna þess að við reynum að bregðast við þeim hörmungum sem við upplifum nú, hruni bankanna og miklum efnahagslegum afleiðingum. Eins og ég hef skilið orðræðu ráðamanna, hæstvirtra ráðherra, um málið er frumvarpið, sem hér er flutt, hluti af uppgjöri við fortíðina, alla vega orðaði hæstv. forsætisráðherra það svo þegar hann ræddi þessi mál í þinginu að við þyrftum að fara í uppgjör við fortíðina og rannsaka málin. Þetta mál er angi af því.

Hæstv. dómsmálaráðherra hefur líka tjáð sig á fyrri stigum um málið, sem nú er í frumvarpsformi, í hátíðasal háskólans 17. október og þar dró hann fram, með leyfi forseta:

„Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis.“

Ég vil taka undir að mjög brýnt er að sefa reiðina sem nú er uppi í samfélaginu, rannsaka málin, sjá hvað gerðist og eftir atvikum færa lögreglunni slík mál til rannsóknar og reyna að gera þau upp. Annars ríkir ekkert traust til framtíðar í samfélaginu, þannig að málið er mjög jákvætt að þessu leyti.

Miðað við orð sem hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde hefur látið falla er ástæða til að hafa sterkan grun um að eitthvað saknæmt hafi verið á ferli. Ég hef alla vega heyrt hæstv. forsætisráðherra ræða þrisvar á þeim nótum. Í fyrsta skipti á einum blaðamannafundanna, sem haldnir voru dag eftir dag þegar bankarnir féllu, en þá kom hæstv. forsætisráðherra því á framfæri að brýnt væri ef eitthvert saknæmt atferli væri á ferðinni að þeir sem slíkt hefðu stundað sættu ábyrgð á því. Hæstv. forsætisráðherra kom þessu einnig til skila á blaðamannafundi sem ég var viðstödd í Helsinki í Finnlandi og dró þetta sérstaklega fram, m.a.s. án þess að vera spurður, og svo í ræðu hér á Alþingi þann 15. október þegar við ræddum skýrslu hæstv. forsætisráðherra um stöðu bankamála. Þá sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Ef minnsti grunur leikur á því að framin hafi verið lögbrot er alveg skýrt að viðkomandi aðilar verða dregnir til ábyrgðar.“

Þetta vekur auðvitað upp miklar grunsemdir — m.a. hjá þeirri er hér stendur, sem er í stjórnarandstöðu og hefur því miður ekki mikinn aðgang að gögnum — um að hugsanlega sé eitthvað saknæmt á ferli.

Mikið álag hefur áður verið á rannsóknastofnanir okkar, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, og ég vil nefna að í greinargerð eða athugasemdum við lagafrumvarpið kemur hæstv. dómsmálaráðherra inn á það og dregur fram að það hafi — og ég ætla að vitna beint í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra í hátíðarsal Háskóla Íslands 17. október, með leyfi forseta:

„Um nokkurt árabil hefur markvisst verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra, sem unnið hafa ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota. Til þessarar hörðu atlögu var stofnað vegna rannsókna og ákæru gegn einu af viðskiptaveldum landsins, sem berst nú fyrir lífi sínu. Ákæruvald og lögregla hafa að sjálfsögðu staðið þessa hrinu af sér.“

Ekki þarf að fara í grafgötur um hvað hér er átt við. Þetta er að sjálfsögðu rannsóknin sem fór fram á Baugi og dálítið merkilegt er að rifja það allt saman upp, því greinilegt var að stjórnmálaflokkarnir höfðu sterkar skoðanir á rannsókninni. Samfylkingin var t.d. með miklar árásir og gagnrýna umræðu á hæstv. dómsmálaráðherra þegar sú rannsókn fór fram og lagði sig verulega fram við að reyna að veikja ríkislögreglustjóraembættið. Það muna allir eftir því sem (Gripið fram í.) hafa verið í stjórnmálum um nokkurn tíma. (Gripið fram í.) Það var mikill ábyrgðarhluti hjá Samfylkingunni að reyna að grafa undan lögreglunni og ríkislögreglustjóraembættinu sem rannsakaði málið. Þetta var mikið álag á ríkislögreglustjóraembættið og efnahagsbrotadeildina en eins og hér kemur fram og er rétt kláraði lögreglan það mál og stóð ágætlega sterk eftir, þrátt fyrir árásirnar.

Nú kemur næsta verkefni og það er ekki af verri endanum, miðað við stærð og umfang. Málið er auðvitað geysilega stórt og nú þarf að rannsaka fall þriggja banka. Það er því rétt sem kemur fram í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra og ég ætla að leyfa mér að vitna áfram í hana, með leyfi forseta:

„Fyrir hafa þessar stofnanir næg verkefni á sinni könnu, auk þess ráða þær tæplega, hvorki yfir nægum mannafla né nægilegri sérþekkingu á þeim atriðum, sem hér koma til álita. Rannsókn flókinna efnahagsbrota, saksókn og dómsmeðferð er tímafrek og kostnaðarsöm í samanburði við önnur sakamál.“

Þetta er hárrétt og að því leyti er mjög eðlilegt að fara þá leið að setja upp sérstakt saksóknaraembætti sem fær þessi mál til rannsóknar og sé grunur á refsiverðri háttsemi, t.d. færslu fjármuna í aðdraganda hrunsins, fer það til lögreglurannsóknar. Ég vildi halda sérstaklega til haga að eðlilegt er að styrkja þær stofnanir sem eiga að taka á málum okkar og ég er algjörlega opin fyrir því að setja upp nýtt embætti saksóknara eins og hér er lagt til.

Ég vil þó slengja því hér með, fyrst ég ræði um embætti sérstaks saksóknara, að mér finnst heitið sérstakur saksóknari frekar óþjált og velti því fyrir mér — og ef hæstv. dómsmálaráðherra mun taka hér til máls síðar væri ágætt ef hann gæti sagt okkur hvort eitthvað hefði verið rætt í ráðuneytinu — að nefna embættið eitthvað annað. Heiti sem væri meira lýsandi, bankahrunssaksóknari eða bankamálasaksóknari eða eitthvað sem væri þjálla fyrir almenning og allir vissu hvað við væri átt þegar viðkomandi aðili tæki til starfa, því ljóst er að grannt verður fylgst með störfum viðkomandi embættis og persónu. Þá væri ágætt að allir vissu um hvað er rætt þegar vinna viðkomandi væri rædd.

Virðulegur forseti. Ég vil líka spyrja hæstv. dómsmálaráðherra, vegna þess að við komum málunum að vissu leyti í einhvers konar lögreglufarveg, út í ræðu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Ef ég skil það rétt sem þar var sagt, sem maður ætti kannski ekki að fullyrða neitt um á þessu stigi, en ég ætla alla vega að leyfa mér að lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

„Af hverju fær almenningur, sem á að borga brúsann, og sá brúsi er engin smásmíði, engar gagnlegar upplýsingar þótt allt ætti nú að vera á borðinu hjá þeim sem hafa mál hinna föllnu banka í höndunum og allt að blasa við eins og opin bók. Niðurfelling forráðamanna Kaupþings á ábyrgðum sínum og annarra hafði legið fyrir vikum saman án þess að nokkuð væri um það upplýst. Það var ekki fyrr en hneykslaðir starfsmenn láku þessum upplýsingum út sem þær urðu almannaeign. Og síðan hefur ekkert verið upplýst, hvernig því máli verður fylgt eftir. Ábendingar sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi hafa ekki fengið brautargengi. Eru menn að bera fyrir sig bankaleynd í þessu sambandi? Bankaleynd á ekki lengur við hvað þessi atriði varðar.“

Mig langar að inna hæstv. dómsmálaráðherra, sem er yfirmaður lögreglunnar í landinu, eftir því hvort þetta sé rétt, hvort ábendingar hafi borist til lögreglunnar og ef svo er, hver kom með slíkar ábendingar? Ef ekki er hægt að upplýsa það, af hverju var þá ekki brugðist við? Hér talar seðlabankastjóri, sem er einn af æðstu yfirmönnum bankakerfisins, og ástæða til þess að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra, yfirmann lögreglunnar, um það, fyrst seðlabankastjóri gagnrýnir þetta opinberlega, af hverju lögreglan var ekki kölluð til ef hún fékk ábendingar. Var hún stoppuð af eða er þetta ekki rétt?

Virðulegur forseti. Ég velti einnig fyrir mér 4. gr. í frumvarpinu, sem fjallar um svokallaða uppljóstrara eða hvíslara eða litla landsímamanninn, eins og sumir vilja kalla það. Þá sem samkvæmt greininni eiga að geta komið upplýsingum á framfæri til þessa sérstaka saksóknara og sloppið við að sæta sjálfir kæru ef upplýsingarnar geta afhjúpað glæpsamlegt athæfi, jafnvel þó að þeir gætu hafa gerst brotlegir við lög. Við þurfum að skoða þetta atriði mjög vel í nefndinni. Að vissu leyti er það mjög þarft og sniðugt, því erfitt gæti reynst að rannsaka svona mál nema einhver innanbúðarmaður hjálpi til við að upplýsa um það en á sama tíma er ekki hægt að sleppa viðkomandi við allar refsingar ef brotið er mjög alvarlegt. Ég sé að í greinninni er reynt að koma málum þannig fyrir að þetta sé í lagi en ég held að við þurfum að skoða þetta virkilega vel í nefndinni þegar við förum nánar í hverja grein fyrir sig.

Líka er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að passa upp á að málið skarist ekki við aðrar rannsóknir sem fram munu fara. Ég skil frumvarpið svo að viðkomandi saksóknari eigi jafnvel að geta rannsakað mál sem Samkeppniseftirlitið og bankaeftirlitið rannsaka. Svo þarf líka að passa að sú rannsókn skarist ekki við rannsóknina sem Alþingi mun setja af stað og hæstv. forseti Sturla Böðvarsson undirbýr ásamt öllum stjórnmálaflokkunum. Ég fagna því sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að æskilegt væri að skoða hvernig Alþingi gæti haft samráð við og eftirlit með embætti sérstaks saksóknara. Hægt væri að setja upp einhvers konar samráðs- og eftirlitsnefnd fulltrúa allra þingflokka sem gæti þá hitt viðkomandi forstöðumann reglulega til að fylgjast með framgangi rannsóknarinnar. Ég held að mjög jákvætt sé að skoða það frekar.

Ég vil líka minnast á opna fundinn með allsherjarnefnd 11. nóvember, sem hæstv. dómsmálaráðherra minntist á í ræðu sinni, þar sem við fengum kynningu á málinu án þess að það væri þá komið til umræðu í þinginu. Þá kom mjög skýrt fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra — og ég vil fagna þeim orðum sem hann lét þar falla — um að hann væri opinn fyrir því að nefndin skoðaði frekar með hvaða hætti stjórnmálaflokkarnir á Alþingi gætu komið að ráðningu sérstaks saksóknara. Í frumvarpinu stendur að dómsmálaráðherra eigi að skipa sérstakan saksóknara sem þarf m.a. að fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara og ég tel að þetta sé eitthvað sem nefndin þarf að skoða af því að mikið traust verður að ríkja til embættisins og sátt um ráðninguna. Við höfum ansi oft séð mikla ósátt um ráðningar. Ég geri mér grein fyrir því að sjálfsagt er erfitt að koma upp einhvers konar „concensus“-ferli um ráðningu í svona embætti, það að einhverjir hafi neitunarvald á vali viðkomandi aðila. Ég held að óhjákvæmilegt sé að skoða þetta í nefndinni vegna sérstakra aðstæðna sem eiga sér upphaf og endi, embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eftir eitt og hálft ár ef ég skil frumvarpið rétt, og því verður að skoða virkilega vel hvort hægt sé að sameinast um einhverja leið þannig að traust og trúnaður ríki frá hendi allra stjórnmálaflokka til viðkomandi embættis.