136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hæstv. iðnaðarráðherra séum sammála í þessu máli um að það beri að fara einhvers konar svona leið.

Ég ítreka samt að ég tel að nefndin verði að skoða þetta mjög vel af því þetta er auðvitað frekar óvenjulegt, svona almennt séð. Samkvæmt greininni á uppljóstrarinn ekki að sæta ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur á broti hans sjálfs. Hann á að sleppa, má segja. En hann á þó ekki að sleppa nema — og svo koma ákveðin ákvæði sem girða fyrir að þeir sem hafa framið einhver mjög alvarleg brot sleppi og gerist uppljóstrarar sjálfir, eða þannig skil ég greinina. Ég tel að við þurfum að lesa hana vel. En almennt séð fagna ég því að það sé grein um uppljóstrara í frumvarpinu og kannski vill hæstv. dómsmálaráðherra útskýra þetta enn þá frekar í seinni ræðu sinni.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. iðnaðarráðherra skuli taka undir það að brýnt sé að sátt verði um val á sérstökum saksóknara. Það er ánægjulegt að kominn er fulltrúi Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd, hv. þm. (Gripið fram í.) Lúðvík Bergvinsson. Ég á von á því þegar við leggjum fram tillögur um það í allsherjarnefnd hvernig standa skuli að ráðningu sérstaks saksóknara þá styðji Samfylkingin það og um það ríki sátt fyrst hæstv. iðnaðarráðherra lagði sérstaka lykkju á leið sína til þess að koma því á framfæri úr ræðustóli Alþingis.