136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan ganga eftir svörum varðandi þær upplýsingar sem koma fram í ræðu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra þar sem hann segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ábendingar sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi hafa ekki fengið brautargengi.“

Ég heyri á hæstv. dómsmálaráðherra, miðað við hvernig hér er talað, að alla vega hafi lögreglan ekki fengið neinar ábendingar. (Dómsmrh.: Ég veit ekki um það.) Hæstv. dómsmálaráðherra veit reyndar ekki alveg um það en það væri ágætt ef hægt væri að upplýsa það. Mér finnst svolítið merkilegt ef það er rétt lögreglan hafi fengið ábendingar og ekki brugðist við. Maður veit ekkert um það.

Ég tel að fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri fari ekki að segja eitthvað á þessum nótum á opinberum vettvangi nema eitthvað sé á bak við það. Það er eitthvað hér á ferðinni. Ég heyri að hæstv. dómsmálaráðherra segir að hann geti ekki gert mikið í því ef einhver hefur fengið ábendingu frá einhverjum. Ef svo væri orðlegði seðlabankastjóri sig ekki með þessum hætti. Maður hlýtur því að velta fyrir sér hvort seðlabankastjóri sjálfur hafi beðið einhvern um að lögreglan færi í málið, hvort hann sjálfur hafi komið með ábendingu sem ekki var brugðist við og þá til hvers. Var það til hæstv. forsætisráðherra, hæstv. dómsmálaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra eða til hvers í ósköpunum? Hefur einhver annar en seðlabankastjóri með einhverja stöðu í kerfinu gert það?

Ég hlýt að ganga eftir svörum hjá hæstv. dómsmálaráðherra sem er yfirmaður (Forseti hringir.) lögreglunnar. Ég hefði gjarnan viljað fá nánari útskýringar — ef hann getur veitt þær hér — á því af hverju í ósköpunum kemur fram í (Forseti hringir.) ræðu seðlabankastjóra að lögreglan hafi ekki verið kölluð til strax, (Forseti hringir.) að málið hafi ekki fengið brautargengi. Hver veitti ekki það brautargengi?