136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get í raun og veru ekki svarað því á annan veg en ég gerði áðan því að ég hef ekki upplýsingar um það. Þessari viku með Davíð Oddssyni er nú að ljúka þannig að vonandi fá menn skýringar á því sem hann hefur sagt, hann upplýsi það sem hann hefur sagt og hvað búi að baki þessum orðum. Ég hef sjálfur sagt að varðandi ræðuna sem hann flutti sé hann þar að tala um að skynsamlegt og nauðsynlegt sé að upplýsa almenning um sem flest. Eins og hv. þingmaður hnýtur um er ástæða til að velta fyrir sér hvað í orðalaginu felst. Það felst ekki í þessu orðalagi að lögreglan hafi fengið ábendingu og ekki brugðist við henni, það er ekki hægt að lesa það. Allir sem eru læsir sjá að það felst ekki í þessu orðalagi, það er annað sem felst í því.

Hv. þingmaður bíður í ofvæni eftir að vita hvað það er en ég get ekki svarað þeirri spurningu og ég er alveg sannfærður um að það eru ekki ábendingar sem beint hefur verið til nokkurs ráðherra enda vitnar hann til bankaleyndar. Ráðherrar eru ekki bundnir af bankaleynd, það eru einhverjir aðrir sem eru bundnir af bankaleynd en ráðherrar. Ráðherrar eru ekki starfsmenn banka og starfa ekki innan fjármálakerfis þar sem menn verða að hafa bankaleynd í heiðri. Hv. þingmaður verður að setja sig í spor rannsakanda og greinanda og lesa úr þessum orðum það sem hægt er að lesa úr þeim. Þar kemur fram að það virðist vera að einhver sem seðlabankastjórinn telur að hugsanlega geti verið bundinn af bankaleynd hafi fengið einhverjar ábendingar.