136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vika með Davíð Oddssyni er að klárast. Ég held nú að ræðan sem seðlabankastjóri flutti verði kannski seinna talin til merkilegri plagga sem komið hafa fram í langan tíma í stjórnmálum því að hún er þess eðlis.

Það er alveg rétt að ég reyni að greina þessa ræðu og átta mig á því hvað þar er á ferðinni í aðdragandanum að bankahruninu, á meðan á því stóð og svo nú í kjölfar þess. Hér stígur leikari á svið, þ.e. seðlabankastjóri, sem gegnir mjög mikilvægri stöðu í samfélaginu, staða hans er lykilstaða í öllu ferlinu. Hann segir frá mikilvægum atriðum, greinir frá ábendingum sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi en hafi ekki fengið brautargengi. Hér kemur fram að hæstv. dómsmálaráðherra telur að þessum ábendingum hafi ekki verið beint til neins ráðherra og væntanlega þá ekki til hans sjálfs og að ekkert hafi komið til lögreglunnar — eða líklega ekkert. Þá hlýtur maður að velta næst fyrir sér Fjármálaeftirlitinu. Var því beint til Fjármálaeftirlitsins að kalla til lögreglu? Fjármálaeftirlitið hafi borið fyrir sig bankaleynd sem seðlabankastjóri efast um að eigi rétt á sér? Ég heyri ekki betur en hæstv. dómsmálaráðherra tali líka á þeim nótum að bankaleyndin eigi að víkja af því að hagsmunirnir eru svo stórir. Hann færir ákveðin rök fyrir því.

Ég tel að við verðum einhvern veginn að grafast fyrir um hvað við er átt af því að þetta er það alvarlegt mál og við ræðum hér einmitt um stöðu sérstaks saksóknara sem á að koma málum í lögreglufarveg. Ef ástæða er til að kalla til lögreglu, setja mál í rannsókn lögreglunnar, á sérstakur saksóknari að gera það. Út á það gengur allt málið. Ræða Davíðs Oddssonar er því svo sannarlega þess virði að við greinum hana og reynum að átta okkur á því hvaða upplýsingar eru á ferli sem við höfum ekki aðgang að en seðlabankastjóri hefur. Hann telur þær vera svo mikilvægar að hann sér sérstaka ástæðu til að koma þeim á framfæri í opinberri ræðu.