136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[15:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Töluverðar umræður hafa orðið um þá möguleika sem kunna að tengjast fyrirhugaðri vinnslu olíu og gass í norðausturhorni efnahagslögsögunnar sem gengur jafnan undir heitinu Drekasvæðið. Það er eðlilegt að menn hafi væntingar til þess. Um töluvert langt skeið hafa vísbendingar gefið til kynna að á þessu svæði, og reyndar á svæði sem teygir sig áfram inn í norsku lögsöguna Jan Mayen megin, að í jarðlögum töluvert djúpt undir hafsbotni kunni að vera að finna verulegt magn af kolvetnisauðlindum, bæði olíu og gasi.

Það má segja að fyrst upp úr 1980 hafi menn farið að gera því skóna að þarna kynni að vera um slíka möguleika að ræða. Á þeim tíma var olíuverð ákaflega lágt og sömuleiðis var svæðið sem um ræðir víðs fjarri Íslandi og Jan Mayen. Þarna er þar að auki um að ræða mikið dýpi þar sem á þessum tíma var ekki hægt að vinna olíu. Dýpið á þessu svæði er frá 1.000 til 1.500 metrar. Síðan hefur olíuverð hækkað verulega með tímanum og þótt það sé ekki lengur í þeim miklu hæðum sem það rauk í fyrr á þessu ári er það eigi að síður tíu sinnum hærra en þegar menn fóru fyrst að velta þessum möguleikum fyrir sér. Í annan stað hefur það jafnframt gerst að menn eru farnir að vinna olíu á því dýpi sem þarna er og við aðstæður sem hugsanlega eru jafnvel torsóttari vegna veður og náttúruhrjósturs.

Vísbendingarnar um olíu á þessu svæði eru kannski þær merkastar að jarðlögin sem þarna er að finna tilheyra í reynd því sem kalla má örmeginland sem slitnaði út úr jarðbrú sem fyrir 40 milljónum ára var samfelld frá þar sem nú er Austur-Grænland og teygði sig alveg yfir til þess sem nú er Vestur-Noregur. Á Austur-Grænlandi hafa menn fundið skýr merki um olíu þótt ekki sé farið að vinna hana. Skemmst er að minnast þess að fyrr á þessu ári töldu bandarískir vísindamenn sem birtu skýrslu um þær olíulindir sem hugsanlega væru ófundnar enn þá að miklar birgðir af kolvetni væri að finna á Austur-Grænlandi. Við þekkjum síðan öll þær miklu olíulindir sem er að finna við Vestur-Noreg.

Þetta var fyrsta vísbendingin og gerði það að verkum að jarðfræðingar skoðuðu þetta örmeginland sem slitnaði út úr þessari jarðbrú og hraktist síðan skáhallt á stefnu jarðlaganna sem það tilheyrði áður. Menn töldu að tilvist þessara jarðlaga, sem eru hin sömu og á Austur-Grænlandi og við Vestur-Noreg, bentu til þess að þarna væri olía. Í kjölfarið áratug síðar þegar menn fóru að gera þarna jarðeðlisfræðilegar mælingar komu fram frekari vísbendingar sem renndu stoðum undir þetta. Á seinni árum hafa síðan enn frekari mælingar á þessum svæðum bent til þess að þarna sé að finna jarðmyndanir sem eru einkennandi fyrir staði þar sem hugsanlega er hægt að finna olíu og gas. Í þriðja lagi vil ég nefna að á síðasta sumri lauk Hafrannsóknastofnun síðasta hluta undirbúningsrannsókna af hálfu Íslendinga og þar birtust upplýsingar sem gáfu til kynna ummerki um gasuppstreymi á hafsbotni.

Íslendingar hafa um nokkurra ára skeið, bæði þessi ríkisstjórn og sú sem á undan sat, hafið undirbúning að því að bjóða út sérleyfi til leitar, rannsókna og hugsanlega síðar vinnslu olíu og gass á þessu svæði. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir er liður í lokaundirbúningi stjórnvalda fyrir útboð á leyfum til rannsókna á kolvetni á Drekasvæðinu sem eiga að fara fram um miðjan janúar næstkomandi.

Það má segja að tvennt standi aðallega upp úr þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi tillaga um breytingu á lögum frá árinu 2001 sem við höfum stundum kallað kolvetnalögin. Þessi breyting veitir íslensku ríkisstjórninni heimild til þess að stofna sérstakt félag til að fara með hagsmuni og réttindi sem varða fjárhagslega hagsmuni ríkisins vegna vinnslu á svæðum þar sem við þyrftum að gera slíka samninga. Í reynd er ég að tala um að ef olía finnst á norska svæðinu, þ.e. Jan Mayen megin efnahagslögsögunnar, mundum við þurfa að hafa slíkt félag til þess að geta nýtt þau réttindi sem við höfum samkvæmt mjög góðum samningi sem íslenska utanríkisráðuneytið gerði vegna þessara svæða árið 1981.

Hitt atriðið sem upp úr stendur, og þarfnast vafalítið umræðu bæði hér og í fagnefndinni, er ákvæði sem er að finna í II. kafla og tengist útgáfu leyfa utan netlaga. Í dag er það svo að leyfisveitingarvaldið er í höndum sveitarfélaganna að netlögum. Við höfum hins vegar fullveldisrétt frá netlögum og til ystu marka efnahagslögsögunnar samkvæmt landhelgislögunum frá 1949 en hvergi í íslenskum lögum er að finna neitt sem segir til um hvar handhöfn skipulagsvaldsins á að vera. Með þessu frumvarpi er gerð tillaga um að það vald verði í höndum Skipulagsstofnunar.

Efni þessa frumvarps er þess vegna skipt í tvo þætti. Í fyrri þættinum er lögð til breyting á löggjöf iðnaðarráðuneytisins, þ.e. lögunum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis sem eru nr. 13 frá árinu 2001. Það eru þau sérlög sem gilda um rannsóknir, leit og vinnslu olíu. Í síðari þættinum eru svo lagðar til ýmsar breytingar á löggjöf umhverfisráðuneytisins vegna þessarar fyrirhuguðu kolvetnisstarfsemi. Þar er um að ræða breytingar á skipulags- og byggingarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og loks lögum um brunavarnir.

Í I. kafla frumvarpsins eru sem sagt lagðar til breytingar á kolvetnislögunum. Við endurskoðun laganna sem fór fram að hálfu nefndar átta ráðuneytisstjóra, þar sem ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytis hafði forstöðu, kom í ljós að nokkur atriði þótti rétt að skýra. Þar var líka um að ræða tvítekningar á nokkrum stöðum sem þótti rétt að hreinsa út og flest ákvæði kaflans lúta að því.

Ég sé ekki sérstaka ástæðu til þess að rekja þær breytingar sérstaklega. Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri til að fara nokkrum orðum um þá heimild sem ég reifaði lítillega við upphaf máls míns, þ.e. heimild til að stofna félag vegna hugsanlegrar þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis, sömuleiðis breytingar á útfærslu gjaldtökuákvæða laganna og loks ákvæði sem tengjast skattlagningu á olíuvinnslu.

Ég vil þó segja alveg skýrt að það er von á öðru frumvarpi, vonandi í næstu viku, af hálfu hæstv. fjármálaráðherra þar sem hinn skattalegi þáttur málsins er lagður fram.

Í 5. gr. þessa frumvarps er fjallað um mögulega þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis og hvernig beri að standa að því. Þar er lagt til að iðnaðarráðherra hverju sinni verði heimilt að ákveða um þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis og í reynd að beita sér fyrir stofnun hlutafélags sem á að hafa það eina markmið að gæta hagsmuna ríkisins vegna þátttöku þess í olíuvinnslu utan efnahagslögsögunnar. Það má því segja að það sé í takt við tímann — af því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er hér í salnum — að þarna leggjum við sem sagt til að það sé búið til ríkisolíufélag. Ég er viss um að það gleður hv. þingmann, það gleður mig líka.

Á þessu stigi er auðvitað gert ráð fyrir að aðkoma íslenskra stjórnvalda að mögulegri olíuvinnslu á íslensku yfirráðasvæði verði fólgin í stjórnsýsluákvörðunum og álagningu skatta. Það er þó ekki gert ráð fyrir beinni þátttöku í vinnslunni og þess vegna er engin þörf á að stofna sérstakt félag til þess að gæta hagsmuna ríkisins innan okkar eigin efnahagslögsögu.

Það liggur hins vegar fyrir að ef olía finnst Noregsmegin á Jan Mayen svæðinu og ef íslensk stjórnvöld telja rétt að nýta sér heimildirnar sem þau hafa samkvæmt samningnum frá 1981 — og reyndar samkomulagi sem var útfærsla á þeim samningi og undirritað hér 3. nóvember af íslenska utanríkisráðherranum og þeim norska líka — er nauðsynlegt að það sé til staðar aðili sem getur komið fram fyrir þeirra hönd og farið með réttindi samkvæmt samkomulaginu.

Þetta er í reynd, frú forseti, félag sem er lagt til að verði sett upp með svipuðum hætti og norska ríkisolíufélagið Petoro sem gætir einungis hagsmuna og fjárhagslegra réttinda norska ríkisins en sinnir ekki vinnslu. Til að unnt sé að bregðast við, ef menn telja að það spretti upp þörf til að stofna sérstakt félag af þessu tagi til þess að fara með hagsmuni íslenska ríkisins, er í 5. gr. lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilað að ákveða um þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis og á þá að beita sér fyrir stofnun hlutafélags sem hefur það markmið eitt að gæta íslenskra hagsmuna, þ.e. hagsmuna íslenska ríkisins. Slíku félagi væri þá einungis ætlað að starfa á landgrunni Íslands eða á þeim svæðum utan landgrunnsins þar sem íslenska ríkið á rétt á hlutdeild samkvæmt alþjóðasamningum og öðrum heimildum.

Á þessu stigi er auðvitað fyrst og fremst verið að ræða um Jan Mayen svæðið. Það liggur ljóst fyrir að þar eru líka mjög sterkar vísbendingar um að olíu eða gas kunni að vera að finna. Samningurinn frá 1981 er Íslendingum mjög hagstæður að því leyti að ef Norðmenn ætla að nýta sér þann fjórðungsrétt sem þeir hafa til að taka þátt Íslandsmegin verða þeir að upplýsa íslensk stjórnvöld um það áður en sérleyfum er úthlutað og verða þá að taka samsvarandi þátt í kostnaði. Samningurinn frá árinu 1981 sem var útfærður með samkomulaginu núna 3. nóvember er hins vegar svo dásamlegur fyrir Íslendinga að hann gerir ráð fyrir að Íslendingar þurfi ekki að taka ákvörðun um það hvort þeir vilji taka þátt í vinnslu fyrr en málið er það langt fram gengið Noregsmegin að ljóst liggi fyrir að þar sé olíu að finna. Í reynd þýðir þetta að það mætti vera byrjað að dæla þar upp verðmætum áður en Íslendingar tækju ákvörðun um að taka sinn fjórðungsrétt þar og leggja þá fram fjármagn sem því svaraði vegna kostnaðar við að koma málinu á þann reit.

Í þessari grein er kveðið á um að öll hlutabréf félagsins verði í eigu íslenska ríkisins við stofnun þess. Þá er kveðið á um það líka að í stjórn félagsins eigi að vera fimm menn. Með hliðsjón af tilgangi félagsins og hagsmunum þess er talið rétt að umræddir stjórnarmenn verði skipaðir sameiginlega af þeim ráðherrum sem málið heyrir undir samkvæmt samkomulagi þeirra á milli.

Í 4. og 11. gr. frumvarpsins eru svo lagðar til breytingar á gjaldtöku vegna afnota af rannsóknarsvæði og leyfisveitingargjalds. Annars vegar er lögð til breyting á svæðisgjaldi. Þessi breyting er lögð til vegna reynslu og að ráðum Færeyinga en þeir hafa löggjöf sem töluverður hluti þeirra breytinga sem ég legg hér fram er sniðinn að. Í þessum greinum er lagt til að svokallað svæðisgjald verði lækkað úr 50 þús. kr. fyrir hvern ferkílómetra í 10 þús. kr. Það hækki síðan um 10 þús. á ári upp að þeim 150 þús. kr. mörkum sem nú þegar eru í lögunum frá 2001.

Hins vegar er lagt til að tekið verði upp umsóknargjald, 150 þús. kr. á hvern umsækjanda, en leyfisveitingargjöldin samkvæmt núgildandi lögum verði lækkuð um sömu fjárhæð. Þetta er líka samkvæmt færeyskri reynslu. Í lögunum frá 2001 er ekki gert ráð fyrir svona umsóknargjaldi, þar eru bara tiltekin leyfisveitingargjöld. Reynslan frá Færeyjum sýnir að það berast alls konar umsóknir um leyfi sem ekki virðast hafa mjög alvarlegan tilgang að baki sér. Það er mikið umstang að fara í gegnum þær og kostar mannafla. Þess vegna þykir rétt að lækka leyfisveitingargjaldið en búa til sérstakt umsóknargjald sem nægir til þess að standa straum af úrvinnslunni sem þarf að leggja fram til þess að vinsa þessar umsóknir úr. Þetta þýðir ekki aukið gjald fyrir þá sem að lokum fá leyfið vegna þess að leyfisveitingargjaldið er lækkað sem þessu nemur á móti.

Í 7. gr. frumvarpsins er síðan lagt til að krafa verði gerð um að væntanlegur leyfishafi stofni sérstakt félag hér á landi til þess að stunda rannsóknir eða vinnslu kolvetnis. Þetta félag yrði þá hinn skattskyldi aðili hér á landi. Með þessu, frú forseti, er verið að tryggja skattalega heimilisfestu þeirra aðila sem ætla að sækja um og fá leyfi og að lokum stunda kolvetnisvinnslu á íslensku yfirráðasvæði.

Þetta var það, frú forseti, sem ég ætlaði að reifa í framsöguræðu minni beinlínis varðandi breytingar á kolvetnislögunum frá 2001 og er að finna í I. kafla frumvarpsins.

Í öðrum þætti frumvarpsins eru svo lagðar til breytingar á þeirri löggjöf umhverfisráðuneytisins sem má telja að hafi sérstaka þýðingu vegna framkvæmda sem tengjast rannsóknum, leit og vinnslu á olíu. Þessi þáttur var vitaskuld saminn í samráði við umhverfisráðuneytið. Þar eru lagðar til ákveðnar breytingar á þeim lögum sem ég hef þegar talið upp, skipulags- og byggingarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um brunavarnir og lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Í þessum lögum er ekki að finna nein ákvæði sem kveða á um framkvæmdir á svæðum eins og Drekasvæðinu sem liggja utan þeirra marka sem valdheimildir samkvæmt núgildandi lögum veita einstökum stjórnvöldum. Eins og ég held að ég hafi þegar sagt hafa lögin um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn frá 1979 ekki að geyma nein ákvæði um hlutverk eða sérstakar valdheimildir einstakra stjórnvalda í þessu sambandi. Þess vegna töldu menn nauðsynlegt að leggja fram tillögu að þeim breytingum sem ég mæli fyrir í þessum kafla frumvarpsins. Það er með öðrum orðum verið að skýra réttarstöðu og fjarlægja ákveðna réttaróvissu um t.d. hvaða stjórnvald á að hafa skipulagsvaldið utan netlaganna og til hvaða stjórnvalds eigi að sækja framkvæmdarleyfið ef málið gengur svo langt.

Í þessu frumvarpi er lagt til að Skipulagsstofnun verði falin skipulagsvernd vegna framkvæmda utan netlaga þar sem skipulagsvaldmörk sveitarfélaganna liggja. Íslenska ríkið hefur sem sagt lögsögu á svæðinu að því er varðar byggingu mannvirkja og afnot af þeim og reyndar líka vísindalegar rannsóknir á verndun hafsins. Það er lagt til að vinnsla og rannsóknarboranir verði tilkynningaskyldar til Skipulagsstofnunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum. Sömuleiðis verði að afla framkvæmda- og byggingarleyfis Skipulagsstofnunar vegna allra framkvæmda fyrir utan starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir atvinnurekstur sem kann að verða settur á laggir til leitar, rannsókna eða vinnslu.

Í frumvarpinu er líka að finna ákvæði sem er ætlað að taka af allan vafa um að rannsóknir og vinnsla á kolvetni falli undir lög um varnir gegn mengun hafs og stranda. Sömuleiðis að þessi starfsemi falli undir lög um brunavarnir svo það sé alveg tryggt að Brunamálastofnun hafi aðkomu að öllum slíkum framkvæmdum og geti komið upp sínum varnarviðbúnaði í formi reglna, eftirlits og annarra þátta.

Vegna sérstöðu þessa svæðis úti í hafi utan netlaga og sömuleiðis starfseminnar sem frumvarpið tekur til eru ákvæðin um að það beri að leita álits ýmissa hlutaðeigandi stjórnsýslustofnana sem eru taldar upp í frumvarpinu ákaflega mikilvæg. Þau birtast í ýmsum greinum þessa frumvarps.

Auðvitað er rétt að taka skýrt fram að við skýringu þessara ákvæða sem ég hef drepið á, og lagt til með þessu frumvarpi að verði að lögum, ber að hafa að leiðarljósi þau meginmarkmið sem nú þegar er að finna í núgildandi löggjöf og sömuleiðis þá grundvallarhagsmuni sem þeim er ætlað að vernda. Það þarf að vera alveg skýrt, frú forseti, að sérstöðu þessa svæðis, eða landfræðilegri legu þessa hluta íslenska yfirráðasvæðisins, er þannig hvorki ætlað að draga úr gildi þessara markmiða né vernd grundvallarhagsmuna eins og þau birtast í eldri lagaákvæðum.

Frú forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki sérstaka ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frumvarp en ég legg til að þegar umræðunni lýkur verði því vísað til 2. umr. og sömuleiðis til hv. iðnaðarnefndar til faglegrar umfjöllunar.