136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[15:56]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp fyrst og fremst til þess að lýsa ánægju minni. Ég tel að hér sé komið mál sem sé ástæða til þess að styðja og gangi í raun út á að laga svolítið til í þessu lagasafni sem er kannski ekki orðið mikið safn enn þá. Upphaflega voru þessi svokölluðu kolvetnislög sett árið 2001 og skiljanlegt að það þurfi að laga þau að aðstæðum og setja þau inn í nútímann og þann raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir. Ég lýsi ánægju minni með að mér heyrist hæstv. ráðherra vera að byggja sig upp í að verða mikill olíumálaráðherra og greinilegt að hann hefur áhuga á þessu máli.

Ég vil náttúrlega líka sem þingmaður Norðausturkjördæmis lýsa því yfir að við vonumst til þess að ef af vinnslu verður á svokölluðu Drekasvæði muni það skapa tækifæri fyrir Norðausturland. Þegar er hafinn undirbúningur þess í samstarfi við iðnaðarráðuneytið og það er mjög gott mál.

Í sambandi við olíuvinnsluna almennt spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra að því hvort hann sé sammála formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands sem lét þau orð falla ekki alls fyrir löngu að það samræmdist ekki stefnu stjórnvalda að fara í olíuvinnslu í okkar efnahagslögsögu. Ég vona að hann fari með rangt mál. Þótt ég viti að ríkisstjórnin er ekki sérstaklega mikið að velta fyrir sér nýjungum í atvinnumálum, að mínu mati, hef ég ekki skilið það þannig að þetta sé rétt hjá þessum ágæta formanni Náttúruverndarsamtakanna. Ég vona alla vega að svo sé ekki og miðað við ræðu ráðherrans áðan held ég að það sé einhver misskilningur.

Eins og ég kom inn á fyrir nokkrum dögum í umræðu hér á hv. Alþingi var sú öld sem nú er liðin mikil olíuöld og hagvöxturinn byggðist mikið á vinnslu kolvetna. Sú öld sem nú er nýhafin er að mínu mati miklu frekar öld nýtingar endurnýjanlegrar orku og má t.d. nefna að hinn nýi forseti Bandaríkjanna er með mikil áform í þeim efnum. Þar gætum við Íslendingar átt erindi vegna þeirrar miklu þekkingar sem við búum yfir á því sviði.

Þó að ég segi þetta er ég náttúrlega alls ekki að halda því fram að við eigum ekki að nýta þau tækifæri sem við hugsanlega höfum hér við Íslandsstrendur — og jafnvel inni í landi, við skulum ekki útiloka það fyrir fram. Þar gætu líka verið möguleikar. Þar má t.d. nefna Tjörnes fyrir norðan þar sem setlögin benda til þess að þar gæti verið um kolvetnaauðlind að ræða. Þetta er eitt af því sem við munum að sjálfsögðu reyna að gera okkur verðmæti úr ef mögulegt er. Eins og kom fram hjá ráðherranum eru allar líkur á því að verð á olíu þurfi nú að vera býsna hátt til þess að þetta sé hagkvæm vinnsla en þó skal ég ekki fullyrða um það. Einhvern tímann hef ég heyrt að tunnan þyrfti að vera á 80 dollara til þess að þetta geti verið hagkvæmt en hef svo sem ekki kynnt mér það neitt frekar.

Ég vil líka halda því til haga að miðað við það sem komið hefur fram hjá sérfræðingum á þessu sviði er álitið að jafnvel 25% af óunninni auðlind, sem sagt bæði olíu og gasi, sem ekki hefur fundist enn sé hér norðan við okkur. Misjafnlega langt kannski til norðurs og aðallega utan við okkar lögsögu — náttúrlega fyrst og fremst utan við hana. Það segir okkur að þegar ísinn bráðnar í norðurhöfum verður mikið kapphlaup um að nýta þá auðlind. Ég veit að þær þjóðir sem telja sig eiga einhvern möguleika á rétti og eigu á landsvæðum munu eiga eftir að takast á um þá hluti en sennilega erum við ekki með sterka stöðu þar.

Innan okkar efnahagslögsögu verðum við að vera á varðbergi og vinna að þessum málum eins og við best getum og ég vil trúa því að það sé haldið ágætlega á þessum málum af hálfu iðnaðarráðuneytisins.