136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[16:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að mér er mjög mikið kappsmál að koma þessu máli í höfn. Þegar því var hrundið af stað í þessari lotu voru aðrar aðstæður í heiminum en eru núna og það kann vel að vera að lánsfjárþurrð og almennur samdráttur í heiminum dragi úr áhuga fyrirtækja á að koma til leitar á þessu svæði. Hitt er alveg ljóst að áhuginn er mikill. Við fundum það bæði á ráðstefnunni sem við héldum og sömuleiðis af heimsóknum margra. Þess má geta að hin nýendurvöktu tengsl okkar við Rússa hafa m.a. og hugsanlega leitt til þess að rússnesk olíufyrirtæki hafa sýnt þessu sérstakan áhuga. Ég ætla samt ekki að segja að það verði partur af framtíð norðausturhornsins að menn þurfi að læra rússnesku til að taka á móti rússneskum olíuskipum þar.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður sagði að vísbendingar eru um að olíu sé að finna t.d. undir Tjörnesi. Sömuleiðis hef ég nýlega séð mjög hrá rannsóknargögn sem benda til þess að undir Austurlandi sé að finna jarðefni sem menn tengja við tilvist kolvetna en um það hef ég ekkert meira að segja og hef ekki séð neitt meira um það.

Það er alveg ljóst að fram undan gæti verið nokkurt vaxtarskeið í þeim byggðarlögum sem liggja þarna næst. Ef aðeins rannsóknir og leit verða í einhverjum mæli er ljóst að við þurfum að taka til óspilltra málanna varðandi t.d. öryggismál. Ég tel t.d. að staðsetja þurfi a.m.k. eina af okkar þyrlum á Norðausturlandi og sömuleiðis þurfi að gera samninga við heilbrigðisstofnanir um að geta sinnt ákveðinni þjónustu. Ég er líka þeirrar skoðunar að þetta muni leiða til þess að það skapist einhver opinber störf bara við allt leyfisveitingaferlið sem mun fara af stað og ég hef sagt alveg skýrt að ég ætlast til að öll þau störf verði norðan lands.

Að því er varðar spurningu hv. þingmanns um það hvort ég sé sammála formanni Náttúruverndarsamtakanna um þetta tiltekna atriði þá er ég því algjörlega ósammála.