136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[13:36]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 31. desember og efnt til almennra þingkosninga í framhaldinu.

Meginástæður þessarar vantrauststillögu og kröfu um þingrof og nýjar kosningar eru að um þetta, um breytingar, um að menn axli ábyrgð, er gerð krafa hvaðanæva úr þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin er sundurþykk og lítt starfhæf. Ríkisstjórnin er sek um mikið andvara- og aðgerðarleysi í aðdraganda efnahagshrunsins. Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts og hefur ekki þjóðina með sér. Innan við þriðjungur þjóðarinnar treystir nú ríkisstjórninni samkvæmt nýjum skoðanakönnunum. Ríkisstjórninni eru og hafa verið ákaflega mislagðar hendur í svokölluðum björgunaraðgerðum, aðgerðum sem fyrst og fremst hafa falist í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um gríðarlegar erlendar lántökur og skuldsetningu þjóðarinnar. Tillagan er sett fram með ábyrgum hætti, sem sagt þannig að verði vantraust samþykkt sé miðað við að þingrof verði í síðasta lagi um áramót og kosningar þá fyrir eða um miðjan febrúar. Það þýðir að tími gefst til að afgreiða fjárlög eða fjárheimildir og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir sem þurfa þykir. Það þýðir að nokkur aðdragandi gefst til að undirbúa kosningar en þó yrði um stutta og vonandi snarpa kosningabaráttu að ræða sem færi fram frá því upp úr áramótum og stæði í 4–6 vikur.

Hæstv. ríkisstjórn ber fyrir sig að við séum stödd í miðjum björgunaraðgerðum og því sé ekki hægt að ganga til kosninga sem stendur. Sumir stjórnarliðar virðast reyndar telja að tímabært sé að kjósa í vor eða í haust, bara ekki núna. Aðrir stjórnarliðar virðast beinlínis hræddir við kosningar og kjósendur og finna hugmyndinni um að lýðræðið hafi sinn gang allt til foráttu. En hve lengi eiga þá hinar tímabundnu björgunaraðgerðir að standa? Sjálfir tala stjórnarliðar um að það séu tvö, jafnvel þrjú, erfið ár fram undan. Hæstv. forsætisráðherra hefur nefnt það til sögunnar að það sé óráð að kjósa því við séum að fara inn í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En á hún ekki að standa í tvö ár hið minnsta? Á Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nú að fara að ráða því líka hvort kosið verður eða hvaða ríkisstjórn situr í landinu? Er það kannski eitt af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hin samvinnufúsa ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur skuli sitja við völd?

Nei, auðvitað eru þetta allt saman aumlegar viðbárur ráðþrota ríkisstjórnar. Staðreyndin er að okkar bíður risavaxið verkefni sem mun taka mörg ár, það er verkefnið að vinna Ísland út úr erfiðleikunum og þjóðin treystir ekki þeim sem komu okkar á kaldan klaka til að leiða endurreisnina. Það er öllum fyrir bestu og þetta mun ekki takast án þess að kjósa sem fyrst um leið og til þess er svigrúm þannig að nýtt þing, ný ríkisstjórn, ný andlit með endurnýjað umboð og þjóðina á bak við sig, geti hafist handa um endurreisn íslensks þjóðarbúskapar.

Víkjum þá nánar að helstu röksemdum fyrir þessari tillögu. Í fyrsta lagi er sundurþykkja ríkisstjórnarinnar öllum ljós. Það talar í raun og veru fyrir sig sjálft. Stjórnarliðar, þingmenn og ráðherrar deila opinberlega í þingsölum sem annars staðar. Þingmenn og jafnvel ráðherrar tala um nauðsyn kosninga sem auðvitað er ekkert annað en vantraustsyfirlýsing. Sumir stjórnarliðar tala um að stjórnarsáttmálinn sé úr gildi fallinn, fornleifar held ég að einhver þeirra hafi kallað hann, stjórnarsáttmálann.

Í öðru lagi er andvaraleysi og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar allan sinn tíma frægt að endemum. Um það eru dæmin svo dapurleg, ég vil ekki segja hlægileg, að engu tali tekur. Frægt er t.d. þegar hæstv. forsætisráðherra sagði, í lok marsmánaðar sl., að botninum væri náð. Hann sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að það væri gleðilegt að krónan skyldi hafa styrkst og hlutabréfamarkaður sömuleiðis sem benti til þess að botnum væri náð — í lok marsmánaðar sl. Í sumar sagði hæstv. forsætisráðherra, í ágústbyrjun, að aðgerðaleysi væri að bera ávöxt. Með leyfi forseta, þetta svokallaða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir í blogginu tala um, það er meðal annars að bera þennan ávöxt. Aðgerðaleysið var að bera þennan rokna ávöxt 5. ágúst sl.

Hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, í lok ágúst? Hún sagði í viðtali við Viðskiptablaðið að hér væri engin kreppa. Við eigum við ákveðna erfiðleika að etja, ákveðna erfiðleika í efnahagsmálum, en þó má ekki tala eins og það sé kreppa í landinu. Hér er engin kreppa, sagði hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, í lok ágústmánaðar.

Í marslok fór ríkisstjórnin í almannatengslaherferð gagnvart útlöndum og ráðherrarnir, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, fóru til útlanda til að leiðrétta það sem þeir kölluðu misskilning um íslenska efnahagsundrið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi þá efnahag íslensku þjóðarinnar sterkan og sagði m.a., með leyfi forseta: „Það er nauðsynlegt að gera grein fyrir því að íslenskur efnahagur stendur styrkum fótum. Raunar er staða íslensks efnahags sterkari en sumra annarra Norðurlanda. Bankar okkar eru einnig mjög sterkir og þrautseigir.“ Þetta sagði hæstv. utanríkisráðherra í almannatengslaúthlaupinu í mars. Það er vert að þetta komi skýrt fram.

Hæstv. fjármálaráðherra var ekki að skafa utan af því heldur þegar hann talaði um ágæti bankanna o.s.frv. (Iðnrh.: Hvað sagði iðnaðarráðherra?) Hæstv. fjármálaráðherra sagði t.d. í lok febrúar að engin þörf væri á breyttri efnahagsstjórn, það væri ekkert í þeirri þróun sem kallaði á breytingar á stefnu okkar. Vissu hæstv. ráðherrar ekki betur? Hefur það ekki komið fram? Lágu ekki á borðum þeirra skýrslur frá Seðlabanka Íslands, frá alþjóðlegum greiningarfyrirtækjum og fleiri aðilum sem sögðu hið gagnstæða en engu að síður var þessu statt og stöðugt haldið fram og ekkert gert nema þá helst þetta að fara í almannatengslaúthlaupið til að leiðrétta misskilning.

Hinn 24. september sagði hæstv. forsætisráðherra, í viðtali við kanadíska sjónvarpsstöð, að staða íslensku bankanna væri mjög sterk og traustar stoðir undir íslenskum þjóðarbúskap, nokkrum dögum áður en fyrsti bankinn komst í þrot. Ríkisstjórnin hefur vandræðast með það sem hún kallar björgunaraðgerðir allan október og það sem af er nóvembermánuði. Ísland hefur hrakist úr einu víginu í annað og einangrast uns að lokum var gefist upp, t.d. í Icesave-deilunni. Eina úrræðið, eina spilið sem ríkisstjórn hafði eftir á hendi, var að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og undirgangast skilmála hans, m.a. um stórhækkun stýrivaxta og meira er boðað í þeim efnum.

Upplýsingagjöf til þjóðarinnar hefur verið í skötulíki en hins vegar eru sviðsettir blaðamannafundir, svokallaðir karamellufundir, haldnir síðdegis á föstudögum þar sem reynt er að koma með góðar fréttir til að slá á væntanleg mótmæli helgarinnar. Fyrir næstsíðustu helgi var kynntur ákaflega innihaldsrýr heimilispakki. Einu fjármunirnir í honum voru til að fella niður gjöld vegna útflutnings á notuðum bílum en þagað var um uppgjöfina í Icesave-deilunni fram á sunnudag. Það hefur örugglega verið að ráðum norska hernaðarráðgjafans nema það skyldi vera hinn nýráðni almannatengill forsætisráðuneytisins, þrautreyndur af störfum fyrir m.a. FL Group.

Fyrir síðustu helgi var kynntur kattarþvottur gagnvart eftirlaunafrumvarpinu. Veruleikinn er sá að í svokölluðum björgunaraðgerðum hefur ekkert bitastætt litið dagsins ljós enn hvað varðar heimilin. Og atvinnulífið hefur ekkert fengið frá ríkisstjórninni eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nema vaxtahækkun. Stendur kannski til að kynna málamyndapakka gagnvart atvinnulífinu á karamellufundi næsta föstudag? Er það kannski inni í myndinni? Hvað segir norski ráðgjafinn? Við skulum sjá hvað setur. Það verður fróðlegt að sjá.

Ýmsar ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið, eða aðilar sem starfa í skjóli hennar í bönkunum eða skilanefndunum, eru vægast sagt umdeildar. Það er því af mörgu að taka þegar kemur að því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á málum þegar út í það algera óefni var komið sem raun bar vitni í fyrstu viku októbermánaðar. Alvarlegastar eru til framtíðar litið hinar gríðarlegu lántökur sem áformaðar eru og þvingunarskilmálar fyrst Evrópusambandsins í Icesave-deilunni og síðan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er fljótreiknað hver greiðslubyrðin verður ef t.d. 1.000 milljarðar kr. af þeim 1.400 sem nú eru samanlagðir í lánapakkanum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og vegna lántöku út af Icesave-deilunni falla að lokum á ríkið. Ef þetta verða 1.000 milljarðar upp á 4,5%, og þó það sé afborgunarlaust fyrstu árin, gerir þetta afborganir upp á 300–340 milljarða kr. á ári á árunum 2012–2015. Menn geta þá sett það í samhengi við fjárlögin og séð að lítið verður eftir til innlendra nota ef fjárlögin verða áfram af sömu stærðargráðu. Ef við erum bjartsýn og segjum að þetta verði 700 milljarðar erum við engu að síður að tala um greiðslubyrði sem er gríðarleg, afborganir og vextir upp á um 200–220 milljarða á ári þau árin sem þetta félli til. Þá mun taka í að ná saman fjárlögum árin 2012–2015 ef pakkinn verður svona saman settur. Sautján og hálft ár Sjálfstæðisflokksins við völd á Íslandi, og eins og málum er nú komið undir hans stjórn, eru eitt og sér næg ástæða til kosninga. Málflutningur og ábyrgðarleysi Samfylkingarinnar, sem heldur þessum sama Sjálfstæðisflokki við völd, er líka næg ástæða til kosninga. Samfylkingin segir: Krónan er ónýt og Seðlabankinn trausti rúinn. Samt ætlar Samfylkingin að taka 700 milljarða erlent lán, setja það á herðar komandi kynslóða til að bjarga þessari ónýtu krónu. Og hver á að fá peningana? Hvert á lánið að fara? Það á að fara inn í Seðlabankann, til Davíðs Oddssonar til að reyna að bjarga krónunni sem ungliðahreyfing Samfylkingarinnar var að leggja til við fólk að henda helgina var. Er þetta frambærilegt? Er þetta ekki stórbrotið? Er þetta ábyrgt? Nei.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þetta er örugglega Íslandsmet ef ekki heimsmet í óábyrgum málflutningi og óábyrgri framgöngu stjórnmálaflokks. Eins og áður sagði nýtur ríkisstjórnin ekki trausts frekar en Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, bankarnir og margir fleiri. Innan við þriðjungur þjóðarinnar treystir ríkisstjórn sem lagði upp með tveggja þriðju hluta fylgi og stuðning í samræmi við það. Kosningar eru því óumflýjanlegar til að endurheimta traust. Það er rétt að muna að ríkisstjórnin afþakkaði tilboð stjórnarandstöðunnar, í sumar, í haust, í byrjun október, um myndun þjóðstjórnar. Ríkisstjórnin ber því alfarið ábyrgð á hinni pólitísku stöðu, hún taldi sig einfæra um að ráða við verkefnið en annað er að koma á daginn. (Gripið fram í.) Óánægju- og reiðiöldur rísa nú hátt í samfélaginu. Það er eðlilegt, hæstv. iðnaðarráðherra. Hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, gerði rétt í því að gaspra ekki og fara með gamanmál þegar maður nefnir ástandið í íslensku samfélagi í dag. Óánægju- og reiðiöldur rísa. Það er eðlilegt, það er skiljanlegt og það er réttmætt. (Gripið fram í.) En við skulum sameinast um eitt og það snýr að ríkisstjórninni og meiri hlutanum: Virkjum þessa reiði í uppbyggilegan farveg en missum hana ekki úr böndunum. Virkjum lýðræðið. Sameinumst um það. Það er hin lögmæta og friðsamlega aðferð að útkljá slík mál í lýðræðislegum kosningum. Kann einhver betra ráð en lýðræðislegar kosningar? Við hvað eru menn hræddir? Og ég segi við ykkur sem eruð að hlusta á heimilum ykkar, á vinnustöðum eða hvar annars staðar sem þið eruð: Þið ráðið þessu. Allt vald sprettur frá þjóðinni í lýðræðissamfélagi. Þjóðin á betra skilið en það sem á henni dynur núna. Þjóðin á rétt á því að gera upp reikningana. Þjóðin á kröfu á starfhæfri ríkisstjórn, starfhæfum Seðlabanka, starfhæfu Fjármálaeftirliti. Þjóð sem vill kosningar á að fá kosningar. Verkefnið, hið risavaxna verkefni sem bíður okkar Íslendinga — að reisa land okkar úr rústum nýfrjálshyggjunnar, rústum græðgisvæðingarinnar, rústum útrásarglæfranna, rústum Sjálfstæðisflokksins í boði ónefndra flokka og nú síðast Samfylkingarinnar — mun mistakast án kosninga. Kosningar eru óumflýjanlegar og til þess þarf stjórnin að fara frá. Það mun gerast fyrr en síðar en þangað til situr hún í boði Samfylkingarinnar.

Herra forseti. Ég legg til að tillaga um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar verði samþykkt.