136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[14:45]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. „Fellibylur“ og „brimrót“ voru orðin sem forustumenn ríkisstjórnarinnar notuðu í ræðum sínum, utanríkisráðherra í lok máls síns en hæstv. forsætisráðherra mjög snemma í ræðu sinni. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um að þjóðin eigi ekki að tala um pólitík eða kosningar. Þjóðin eigi ekki að taka afstöðu til þess hvort ríkisstjórnin nýtur trausts, ekki eigi að vera pólitísk karp í landinu. Það má bara vera pólitískt karp innan ríkisstjórnarinnar, sérstaklega innan Samfylkingarinnar þar sem ráðherrarnir hafa ekki einu sinni vitneskju um það, miðað við orð hæstv. iðnaðarráðherra, hvort fundir voru haldnir í febrúar um ástand mála eða ekki.

Ríkisstjórnin nýtur nú aðeins stuðnings 30% þess fólks sem býr í landinu. Hún er trausti rúin og hluti þingmanna og ráðherrar annars ríkisstjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, lýsa vilja sínum til þess að kjósa á næsta ári. Hinn ríkisstjórnarflokkurinn hefur setið samfellt að völdum í 17 ár.

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, nú seðlabankastjóri í seðlabanka Geirs og Sollu, veitti forustumönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætis- og utanríkisráðherra, einum sérfréttir af því í febrúar sl. að bankakerfið á Íslandi stefndi í hrun. Menn gera lítið með svo neikvæðar fréttir um að þjóðin verði í skuldafeni vel fram á þriðja tug þessarar aldar. Forustumenn ríkisstjórnarinnar halda þeim upplýsingum leyndum og segja ekki einu sinni ráðherrum sínum frá ef marka má orð hæstv. iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sem var staðgengill hæstv. utanríkisráðherra nýlega, m.a. á þeim mörgu fundum sem forustumenn stjórnarandstöðunnar áttu með stjórnarliðinu.

Það er að vísu ekki undarlegt þótt forsætisráðherra þegði sem fastast um neikvæðan boðskap Davíðs í febrúar sl., enda voru hans dyggustu flokksmenn og ráðherrar sannfærðir um að veislan væri til frambúðar, eins og orð hæstv. fjármálaráðherra báru með sér þegar hann sagði úr þessum ræðustól í lok mars 2007, á einum af síðustu starfsdögum Alþingis: „Drengir, sjáið þið ekki veisluna? Sjáið þið ekki veisluna, drengir, sem við erum staddir í?“ Þau orð féllu úr þessum ræðustól í lok mars 2007. Þá var veislan í hámarki. Samkvæmt því kom Samfylkingin að góðu borði í maí 2007 og 43 manna þingmeirihluti stóð að nýrri ríkisstjórn. Allt var í blóma og Þingvallastjórnin, athafna- og velferðarstjórnin, leit dagsins ljós. Gleðin var í hámarki allt það sumar og í fjárlagaumræðu haustið 2007 var bjart í allar áttir sem aldrei fyrr. Bankarnir voru með ofgnótt fjár og allar efasemdir stjórnarandstöðunnar blásnar út af borðinu eins og sjá má í þingtíðindum. Útrásin var á flugi og fjárlög mikillar eyðslu voru lögð fram.

Þann 27. nóvember árið 2007 fór fram á hv. Alþingi mikill lofsöngur um að við værum best í heimi. Fyrir þeirri umræðu stóðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Málshefjandi var hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir sem sagði reyndar nýverið á Alþingi, ef ég man rétt, hæstv. forseti, að þjóðin hefði aldrei séð það svartara en núna, aldrei nokkurn tíma. Það eru ekki margir dagar síðan þau orð féllu af vörum hv. þingmanns hér. En hvert var tilefni þessarar ofurbjartsýni ríkisstjórnarliðsins fyrir ári síðan? Tilefnið var að Sameinuðu þjóðirnar höfðu birt skýrslu um lífskjör meðal 177 þjóða og þar átti Ísland að hafa komið afar vel út í samanburði. Hvað sagði hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, þá? Jú, hann sagði orðrétt 27. nóvember sl., með leyfi hæstv. forseta:

„Það sem er merkilegt við þessa niðurstöðu er að ekki er eingöngu mældur kaupmáttur eða fjárhagslegur hagur viðkomandi landa heldur einnig önnur atriði sem áhrif hafa á velmegun viðkomandi þjóðar og þá batnar staða okkar enn miðað við einfalda mælingu á ráðstöfunartekjum á mann. Þetta er ánægjulegt en jafnframt áskorun til okkar um að halda áfram að standa okkur vel og gera enn betur ...“

Það sagði hæstv. forsætisráðherra og vitnaði þá til orða þingmannsins sem hóf umræðuna. Hæstv. forsætisráðherra bætti um betur og sagði, með leyfi forseta:

„Í morgun bárust líka þau tíðindi að hið alþjóðlega lánshæfisfyrirtæki Moody's hefði ákveðið að breyta ekki lánshæfismati á ríkissjóði Íslands, hvorki matinu sjálfu né horfunum hvað það varðar. Ástæða er til að vekja athygli á því að Moody's hefur haft okkur í hæsta flokki nú um nokkurra ára skeið og sér ekki ástæðu til að gera breytingar þar á. Því vil ég líka fagna sérstaklega. Þetta hvort tveggja ætti að vera þeim áminning innan lands sem utan sem reyna að tala niður allan árangur sem náðst hefur. Margt hefur gengið vel. Mörg verkefni þarf að leysa, mörg vandamál eru óleyst, þannig er það alltaf. En sem betur fer fáum við vísbendingar um að við séum þrátt fyrir allt á réttri leið.“

Hæstv. forseti. Ég vitnaði hér í orð hæstv. forsætisráðherra fyrir ári síðan. Svo mörg voru þau orð. Þau áföll sem nú blasa við þjóðinni eru einsdæmi og miklir erfiðleikar bíða almennings í þessu landi. Smám saman skýrist sú grafalvarlega staða sem þjóðin stendur frammi fyrir og þá einnig þeir erfiðleikar og kostnaður sem á okkur fellur sem þjóð á næstu árum. Seðlabankastjóri upplýsti nýverið á fundi Viðskiptaráðs að Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu var gert kunnugt í febrúar sl. hvaða hætta vofði yfir Íslandi vegna starfsemi og útþenslu bankanna. Á þeim fundum sem við forustumenn stjórnarandstöðunnar áttum með forustumönnum ríkisstjórnarinnar frá því í byrjun október og fram í miðjan nóvember vorum við aldrei upplýstir um þá váboða sem um var rætt í febrúar sl. á leynifundum Davíðs, Geirs og Ingibjargar Sólrúnar. Þær upplýsingar voru heldur ekki gefnar á sl. vori þegar leitað var heimildar Alþingis um 500 milljarða kr. lántöku erlendis.

Ég lít svo á að Seðlabanki Íslands sé ekki aðeins seðlabanki hæstv. forsætis- og utanríkisráðherra sem gefi þeim einum réttar upplýsingar um aðsteðjandi hlut íslenska fjármálakerfisins. Við erum að ræða um Seðlabanka Íslands sem ber skyldur en upplýsir aðeins á leynifundum um alvarlegasta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir. Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa brugðist því trausti að upplýsa þjóðina og bregðast við vandanum sem þeim var ljós í febrúar sl. Bæði forsætis- og utanríkisráðherra hafa nú loksins staðfest að þessir fundir voru haldnir um fjármálakerfið í febrúar sl., sá fyrsti 6. febrúar. Svo virðist sem sumum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafi heldur ekki verið sagt frá þessum leynifundum.

Þegar ég dró fram þá stöðu í október sl. að skuldir þjóðarinnar gætu orðið 800–1.000 milljarðar kr. var því mótmælt af hæstv. forsætisráðherra sem vafasömum og jafnvel röngum tölum. Nú lítur út fyrir að heildarskuldir ríkissjóðs í lok árs 2009 eða á árið 2010 verði 400 milljörðum kr. hærri eða allt að 1.400 milljarðar kr. Þessi ríkisstjórn er rúin trausti og hún á að segja af sér. Þjóðin á rétt á að kjósa nýja forustu á næsta ári. Menn starfa ekki áfram eftir að leynimakk og svik hafa verið upplýst.

Mikið verk er fram undan sem er að rannsaka m.a. allt það ferli sem átti sér stað í gömlu bönkunum og öll þau krosseignatengsl sem þar voru og eru staðreynd á Íslandi. Stjórnarandstaðan fékk aldrei réttar upplýsingar frá starfandi stofnunum sem undir ráðherrana heyra og ekki gáfu ráðherrar þær upplýsingar til þings eða þjóðar. Stjórnarandstaðan hefur í ljósi staðreynda sem nú koma í ljós sameinast um að bera fram vantraust á ríkisstjórnina. Í ljósi vinnubragðanna er stjórnin nú rúin öllu trausti. Það verður ekki létt verk að koma þjóðinni yfir þá kjaraskerðingu og að öllum líkindum skattahækkanir sem fram undan eru næstu árin vegna glæfralegrar fjármálastefnu bankakerfis og ekki hvað síst vegna athafnaleysis núverandi ríkisstjórnar sem fólkið í landinu treystir ekki lengur til að stjórna málum. Það verður fróðlegt að sjá hvort samfylkingarfólk sem sumt hvert úr ráðherraliðinu hefur krafist kosninga, vill félagsleg gildi í öndvegi næstu árin eða ekki. Eða ætlar Samfylkingin og hennar fólk að velja að fylgja Sjálfstæðisflokknum, sem öllu hefur ráðið í 17 ár, til framtíðar? Er það það veganesti sem þjóðin á víst af hendi Samfylkingarinnar? Er það vaktin sem Samfylkingin ætlar að standa?

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að sú vakt sem staðin hefur verið á þessu landi um hagsmuni þjóðarinnar er vakt vonbrigðanna. Hún gefur þá mynd af hæstv. ríkisstjórn að þó að hún hafi fengið upplýsingar og viðvaranir hafi hún ekkert með þær gert. (Gripið fram í: Hvar eru þingmennirnir?) — Hafi ekkert verið með það gert. Menn hafi talað á eftir við bankastjóra viðskiptabankanna — eða kannski einhverja aðra sem ég veit ekki hverjir eru — og verið upplýstir um að hér væri allt í besta lagi, hér væri bara bjart fram undan, við þyrftum ekki að hafa miklar áhyggjur.

Ég minnist orða hæstv. forsætisráðherra sem sagði eitthvað á þá leið að tíminn ynni með okkur. Þau orð hafa reynst vera alger öfugmæli. Á okkur hefur skollið ástand sem ef til vill var hægt að forðast ef menn hefðu tekist á við það verkefni í tíma. Til hvers voru menn að biðja um 500 milljarða kr. lánsheimild í maí ef þeir treystu sér ekki til að nota hana til að reyna að verja stöðu Íslands?

Í málflutningi Samfylkingarinnar hefur hún endalaust farið fram með að eina leiðin fyrir Ísland væri að ganga í Evrópusambandið og taka strax upp evru. Ég verð að spyrja í lokin, hæstv. forseti, hvort Samfylkingunni sé alveg nákvæmlega sama um með hvaða eigin lög við Íslendingar færum inn í Evrópusambandið ef til kæmi. Er Samfylkingunni algerlega sama um þótt fiskstofnarnir okkar séu seldir fyrir fjármuni og hver geti keypt þá sem vill ef við förum þangað inn? Ætlar Samfylkingin að fara inn í sambandið þrátt fyrir að þær þjóðir sem væru með okkur í sambandinu ef við færum þangað inn, gætu keypt auðlindir okkar, gætu ráðið þeim? Er ákafinn við að komast í Evrópusambandið svo mikill að öllu má til fórna, íslenskum auðlindum, fallvötnum, jarðhita, fiskinum í sjónum, landbúnaði í landinu o.s.frv.? Geta menn hent öllu bara til að komast inn í hið langþráða Evrópusamband? Ég segi nei, hæstv. forseti. Það er ekki hægt að gera það. Það er margt sem við þurfum að laga í löggjöf okkar áður en okkur er yfirleitt fært að stefna inn í Evrópusambandið.