136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[15:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hvers vegna vantraust? Hvers vegna að krefjast þess að ríkisstjórnin fari frá og að efnt verði til kosninga í landinu? Sjálfum finnst mér svarið liggja í augum uppi. Ástæðurnar eru þrjár. Í fyrsta lagi snýst það um að axla ábyrgð fyrir fortíð og fyrir það sem er að gerast núna. Í öðru lagi snýst það um að virða lýðræðið, lýðræðislegan vilja í landinu. Í þriðja lagi snýst það um framtíðina, að þjóðin fái tækifæri til að ákveða sjálf hvert hún nú vilji stefna á þeim tímamótum sem við stöndum.

Fyrst að ábyrgðinni. Að sjálfsögðu eiga höfuðpaurarnir í fjármálasvikamyllunni að axla ábyrgð. Fyrir helgina var ungur maður hnepptur í varðhald vegna vangoldinnar sektar sem hann hlaut fyrir að mótmæla umhverfisspjöllum í þágu stóriðju. Á sama tíma og það gerðist ganga lausir þeir menn sem eru valdir að þeim þrengingum sem íslenska þjóðin á nú við að stríða. Þeir eru órannsakaðir, þeir eru ódæmdir og nú berast fréttir af því að enn séu þeir að skáka til milljörðunum, enn séu þeir með sínar þotur, kaupandi fjölmiðlana í landinu og í þann veginn að ryðjast inn í sjúkrahúsin. Hæstv. heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins er þar dyravörður og opnaði nú síðast dyrnar á sjúkrahúsinu í Reykjanesbæ fyrir milljarðamæringinn sem horfir þangað girndaraugum.

Skipun ríkisstjórnarinnar um að skera niður um 10% í velferðarþjónustunni (Gripið fram í: Það er engin svoleiðis skipun.) gengur einmitt út á þetta. Ég þekki það. Spurðu þau á Kristnesspítala, spurðu þau í Reykjanesbæ, spurðu þau, hv. þingmaður Samfylkingarinnar, á Landspítalanum þar sem menn eru að ræða á hvern hátt þeir geti orðið við þessari skipun ríkisstjórnarinnar. Þetta er staðreynd. (Gripið fram í: Það er engin slík skipun.)

Í annan stað eiga eftirlitsstofnanir landsins að sjálfsögðu að sæta ábyrgð, sæta rannsókn og ábyrgð. Þar horfi ég til Fjármálaeftirlitsins, til Seðlabankans og til annarra eftirlitsstofnana. (Gripið fram í: Seðlabankans?) En síðast en ekki síst er það að sjálfsögðu ríkisstjórnin sem á að axla ábyrgð. Nú er komið á daginn og hefur verið upplýst að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna sátu fund eftir fund með fulltrúum Seðlabanka í byrjun þessa árs þar sem stafað var ofan í þau hver vandi blasti við íslenska fjármálakerfinu. Hvernig áttu þau að bregðast við? Fara með þessi válegu tíðindi í fjölmiðla? Þau áttu að fara varlega að mínum dómi, þau áttu að kalla til sérfræðinga, innlenda og erlenda, og grípa til varúðarráðstafana. Það var ekki gert. En hvað var það sem þau gerðu? Þau héldu út í heim með útrásarvíkingunum. Í byrjun marsmánaðar fór hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, 11. mars, til Kaupmannahafnar ásamt Sigurði Einarssyni til að segja Dönum og til að segja fjárfestum á meginlandinu að ekkert væri að óttast. Tveimur dögum síðar var hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde mættur til New York með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni útrásarvíkingi að sannfæra Bandaríkjamenn um að ekkert væri að óttast. Það er í kjölfarið á næstu vikum sem skuldasöfnunin, mesta skuldasöfnunin á sér stað og við erum nú að fá í bakið. Ekki bara við núlifandi Íslendingar eða við sem erum komin á legg, heldur er verið að setja á ungar axlir upprennandi kynslóðar skuldaklyfjar fram í tímann. Og þetta er á ábyrgð þeirra sem hér sitja, hæstv. forsætisráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, og hæstv. utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði áðan: „Að sjálfsögðu eiga menn að axla ábyrgð.“ Ég spyr: Hvað ætlar hann að gera sjálfur þegar þess er óskað að verk hans verði sett í dóm þjóðarinnar, að lýðræðið fái að ráða? Það er okkar ósk.

Íslendingar, við þekkjum það öll, eiga vini og hafa átt vini um allan heim. Hvernig stendur á því að enginn hefur viljað rétta okkur hjálparhönd? Hvernig stendur á því? Það er vegna þeirra, það er vegna þess að þau fóru út í heim með lygar og ósannindi. Þau eru ótrúverðug og verða að víkja. Það eru þau sem hafa komið í veg fyrir að Íslendingar fengju þá aðstoð og þau lán sem við óskuðum eftir. Það er ódýrt að benda á eftirlitsstofnanirnar þegar ábyrgðin er í reynd á þessum bekk hér, hjá þessu fólki sem hefur verkstýrt okkur og leiðsagt okkur út í það forað sem við erum komin og erum að reyna að komast upp úr.

Hvað er að gerast í fjármálakerfinu? Í hvað er verið að nota þessa 200 milljarða sem fóru í peningamarkaðssjóðina? Getur einhver svarað því hér? Nei. Þetta er eitt háskólasjúkrahús á ári í tíu ár og enginn hér í salnum getur svarað því hvað varð um þessa peninga, enginn. Er verið að afskrifa skuldir hjá stórfyrirtækjum, eins og haldið var fram í sjónvarpinu í gær, á sama tíma og þrengt er að heimilunum og smáfyrirtækjunum og þau sett á hausinn? Getur einhver svarað því? Nei. Slíkt er ógagnsæið undir verkstjórn þessa fólks. Ekki skipta um hest í miðri á, sagði formaður Samfylkingarinnar, og hæstv. forsætisráðherra bætti því við að þau væru lögst í björgunarleiðangur sem ekki mætti trufla.

Hvert var haldið í þann björgunarleiðangur? Til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lét þau gera það að sínu fyrsta verki að keyra stýrivexti upp um 50% sem verður þess valdandi, og það deilir enginn um það, að skuldug smáfyrirtæki og heimili munu ekki rísa undir klyfjunum. Svo kemur formaður Samfylkingarinnar hingað í ræðustól og montar sig af ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Hverjar eru þær? Frestun á frest ofan. Það er ekki að ófyrirsynju, það er ekki að ástæðulausu að fólk talar um að lengt sé í hengingarólinni. Það er verið að skjóta vandanum lengra inn í framtíðina. Það er ekki gripið til neinna ráðstafana sem raunverulega létta byrði fólksins til framtíðar. Það er ekki verið að gera það.

Fyrst er það fólkið, svo er það flokkurinn og allra síst ráðherrar, sagði formaður Samfylkingarinnar á fundi flokks síns nú um helgina. Hún bætti því við að ef hún væri ekki í ríkisstjórn væri hún úti á Austurvelli að mótmæla. Hvers konar veruleikafirring er þetta? Getur verið að forgangsröðunin sé hið gagnstæða, fyrst er það ráðherrann, svo er það flokkurinn og síðan og allra síst er það fólkið?

Góðir Íslendingar. Lýðræðið er okkar eina von, að við getum haft styrk hvert af öðru. Lýðræðið er aðferð til að virkja kraft fjöldans til að hugsa og taka ákvarðanir í sameiningu með lýðræðislegri umræðu. Engin þekkt aðferð er jafnörugg og öflug. Ríkisstjórnin biður um frið, hún biður um frið frá þessari aðferð. Hún biður um frið frá lýðræðinu, hún biður um frið frá fólkinu, hún biður um frið frá þjóðinni en ég er sannfærður um að þegar búið verður að fella okkar tillögu, því að það held ég að gerist, mun rísa og magnast sem aldrei fyrr sú krafa sem heyrist hér á Austurvelli laugardag eftir laugardag og á fjöldafundum sem verið er að efna til um allt land, um að lýðræðislegur vilji í landinu verði virtur. Það sem kosið verður um er um nýtt Ísland og nýja framtíð, að endurheimta auðlindir þjóðarinnar til sjávarins, til landsins, vatnið, raforkuna í hendur íslensku þjóðarinnar að nýju. [Lófatak á þingpöllum.]

(Forseti (ÁRJ): Ég verð að biðja gesti á pöllum að hafa hljóð.)